Jarðhiti

Jarðhitaverkefni Þróunarsamvinnustofnunar Íslands (ÞSSÍ) og Norræna Þróunarsjóðsins (NDF) miðar að því að aðstoða lönd í sigdalnum í Austur Afríku við rannsóknir og mannauðsuppbyggingu á sviði jarðhitanýtingar, með það að markmiði að auka möguleika þessara landa til framleiðslu sjálfbærrar og hreinnar orku. Vonast er til að við lok verkefnisins hafi löndin skýra mynd af þeim möguleikum sem til staðar eru á sviði jarðhita, þar sem möguleikar eru fyrir hendi séu skilgreind svæði fyrir mögulegar tilraunaboranir, og getu og mannauð til að fylgja málum eftir á næstu stigum til framleiðslu raforku eða beinnar nýtingar jarðhita s.s. við þurrkun matvæla. Íslensk jarðhitaþekking gegnir lykilhlutverki í því að skilgreina allar rannsóknir og tryggja gæði þeirra svo og við þjálfunarverkefni.

Verkefnið er samstarfsverkefni milli Íslands, Alþjóðabankans og Norræna þróunarsjóðsins sem leggur 5 milljónir evra til framkvæmdar þess á móti framlagi Íslands að sömu upphæð yfir fimm ára tímabil. Undir samstarfi Íslands og Alþjóðbankans er miðað við að verkefni ÞSSÍ og NDF taki að sér fyrstu skref jarðhitarannsókna, en á seinni stigum verkefna taki bankinn við og standa að frekari þróun verkefna s.s. tilraunaborunum, þar sem frumrannsóknir hafa skilgreint vænlega möguleika. Alls hafa nú tíu ríki óskað formlega eftir samstarfi, Eþíópía, Sambía, Tansanía, Búrúndí, Rúanda, Kenía, Djíbútí, Malaví, Úganda og Kómoreyjum, en einnig óskaði UNEP eftir samstarfi við ÞSSÍ um framkvæmd jarðhitarannsókna í Erítreu og var gengið frá samstarfssamningi um það verkefni í lok árs 2014. Innleiðing verkefnisins er nú þegar hafin í öllum þessum löndum nema Malaví og Kómoreyjum, þar sem viðræður eru enn í gangi við löndin um mögulega aðkomu.

Þar sem allmörg framlagsríki og stofnanir starfa í tengslum við jarðhitamál í Afríku er mikilvægur hluti af framkvæmd verkefnisins samstarf og samhæfing við aðrar stofnanir. Þannig tekur ÞSSÍ reglulega þátt í fundum og samtali við Alþjóðabankann, Evrópusambandið, Umhverfisstofnun SÞ og Afríkusambandið auk fleiri aðila um jarðhitaþróun á svæðinu. Í maí 2014 var til að mynda haldinn á Íslandi árlegur samstarfsfundur gjafaríkja og landa í Afríku um jarðhita, og mættu yfir 50 fulltrúar til fundarins.  Fulltrúar ÞSSÍ ásamt Einar Gunnarssyni þáverandi ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytis sóttu einnig Argeo – 5 ráðstefnuna í Arusha í Tansaníu um haustið, þar sem verkefnin voru kynnt og rætt var við fulltrúa stofnana og ríkja.

Samstarf við einstök lönd 

Í Eþíópíu er verkefnasamstarf ÞSSÍ og NDF innleitt af Gelogical Survey of Ethiopia (EEP) og Ethiopia Electric Power (EEP) í nánu samstarfi við Alþjóðabankann, en í landinu eru miklir möguleikar til þróunar jarðhita, í því sambandi hefur verið talað um 5000 MW. Verkefnið í Eþíópíu er stærsta samstarfsverkefnið í jarðhitasamstarfi ÞSSÍ og NDF, alls um 3.5 milljónir bandaríkjadala. Innan verkefnisins er nú þegar er komnar af stað yfirborðsrannsóknir á svæðunum Tendaho Alalobeda og Aluto Langano. Bæði þessi verkefni tengjast jarðhitaverkefni Alþjóðabankans í Eþíópíu. Sem hluta af rannsóknum á þessum svæðum hefur einnig verið veittur umtalsverður stuðningur við tækjakaup til jarðhitarannsókna. Einnig hefur verkefnið aðstoðað við tæknilegar skilgreiningar vegna útboða á borum, tækjum og efni til jarðhitaborana, sem svo verða fjármagnaðar af Alþjóðabankanum. Í lok árs 2014 var lokið við undirbúning á þjálfunarþáttum, sem framkvæmdir verða í upphafi árs 2015. Þar er um að ræða þjálfun við jarðhitaboranir, fjármögnun jarðhitaverkefna og verkefnastjórnun í jarðhitaverkefnum. Öll þessi námskeið verða framkvæmd af íslenskum sérfræðingum.

Í Kenía fór síðla árs 2014 í gang samstarf við Geothermal Development Company (GDC), jarðhitafyrirtæki landsins sem að fullu er í eigu stjórnvalda. Samstarfið miðast annars vegar að því auka færni sérfræðinga GDC með þjálfun sem og frágangi yfirborðsrannsókna á Suswa jarðhitasvæðinu í Kenía og er reiknað með að sú vinna hefjist um mitt ár 2015. Miðað er við að þjálfun sérfræðinga fari fram að hluta í gegnum starfsþjálfun í íslenskum fyrirtækjum og stofnunum.  Þá mun mikilvægur hluti samstarfsins snúa að því að fá alþjóðlega gæðavottun á rannsóknarstofum GDC. Hins vegar miðar verkefnið að því að styðja við uppbyggingu miðstöðvar fyrir jarðhitaþjálfun þannig að tækifæri skapist fyrir löndin í kring að sækja þjálfun til Kenía. Hér er því um að ræða mjög spennandi viðleitni til að skapa svæðisbundið samstarf í Austur Afríku við þjálfun jarðhitasérfræðinga með skýrri aðkomu íslenskra sérfræðinga. Undir verkefni ÞSSÍ/NDF er fór af stað útboð í lok árs 2014 vegna úttektar sérfræðinga á raunhæfni slíkrar miðstöðvar og mögulegum útfærslum, og horfa aðrar stofnanir til þessara skýrslu af miklum áhuga um frekara samstarf við uppbyggingu miðstöðvarinnar. Reiknað er með að íslensk reynsla að þjálfunarmálum tengdum jarðhita muni spila stórt hlutverk í þróun þessarar miðstöðvar.  

Í Rúanda hefur verkefni ÞSSÍ og NDF stutt við þjálfun í tengslum við tilraunaboranir á Karisimbi svæðinu. Því þjálfunarverkefni lauk á árinu 2014 en það var framkvæmt af Jarðhitaskólanum og fólst í beinni þjálfun innlendra starfsmanna á borstað. Eftir að borunum lauk, því miður án þess að finna jarðhita, átti ÞSSÍ  í viðræðum við stjórnvöld í Rúanda um hvernig áframhaldandi stuðningur myndi nýtast landinu best. Niðurstaðan var sú að styðja við úttekt á stöðu jarðhitamála í landinu ásamt tæknilegum stuðningu við uppbyggingu jarðhitaáætlunar fyrir landið. Einnig var sett í gang úttekt við mat á möguleikum landsins til að nýta jarðhita með beinum hætti við þurrkun matvæla, en núverandi þurrkaðferðir nota viðarbrennslu við þurrkun. Skýrslu um stöðu jarðhitarannsókna í landinu var skilað til Rúanda í júlí og í ágúst 2014 kynnut íslenskir sérfræðingar niðurstöður hennar fyrir stjórnvöldum.  

Í Sambíu hefur ÞSSÍ einnig verið í nánu samstarfi við Alþjóðabankann, og verið aðili að fundum bankans og stjórnvalda. Í tengslum við það samstarf var sett af stað forkönnun á einu svæði í Sambíu og var skýrslu um þá rannsókn skilað í júlí 2014. 

Í Djíbútí hefur ÞSSÍ átt samtöl við Alþjóðabankann um jarðhitastuðning þeirra í Djíbútí ásamt því að eiga fundi með þarlendum stjórnvöldum í kjölfar beiðni um stuðning frá landinu. Loka undirbúningur stendur nú yfir varðandi samstarfsverkefni sem styðja mun við þjálfun í jarðhitaleit á Lake Abhe svæðinu, ásamt þjálfun í skipulagi og verkefnastjórnun jarðhitaverkefna í landinu, en í Djíbútí hafa stjórnvöld nú sett á laggirnar sérstaka stofnun fyrir jarðhita. Reiknað er með að Samstarf við Djíbútí mun fara af stað með formlegum hætti 2015. 

Í samvinnu við Alþjóðabankann hafa staðið yfir viðræður um samstarf í Úganda. Beiðni um samstarf barst frá Úganda og hefur ÞSSÍ fundað með stjórnvöldum um mögulegan stuðning. Viðræður um mögulegan stuðning standa yfir.

Beiðni um samtarf hefur borist frá Malaví og voru sjö þáttakendur frá landinu á námskeiði sem verkefnið stóð fyrir í Kenía í Nóvember 2013. ÞSSÍ er einnig í samræðum við Alþjóðabankann um aðkomu að jarðhitamálum í Malaví undir orkuverkefni þeirra í landinu.  

Eftir að beiðni um samstarf barst, í gegnum Alþjóðabankann, frá Búrúndí, var gerð forkönnun á jarðhitamöguleikum í landinu, sem benti til að um lághitasvæði væri að ræða. ÞSSÍ er áfram samstarfi við Evrópusambandið í Rúanda við framkvæmd svæðisbundins jarðhitaverkefnis sem nær til Búrúndí, Rúanda, og Austur Kongó, en ekki hefur verið farið í frekara samstarf í landinu.  

Í Tansaníu hefur nokkuð verið unnið að undurbúningi og gott samtal átt við stjórnvöld og Afríska þróunarbankann (AfDB), sem sér um SREP (Scaling up Renewable Energy Program) verkefnið í Tansaníu, og er Alþjóðbankinn aðili að því verkefni. Yfirvöld í Tansaníu stofnuðu sérstakt jarðhitafyrirtæki, að fullu í eigu stjórnvalda. Formleg beiðni hefur borist frá þeim til ÞSSÍ og NDF um samstarf og átti ÞSSÍ fundi með stjórnvöldum á árinu. Líklegt er að fyrstu skrefin í því samstarfi verði forkönnun á þremur jarðhitasvæðum í Tansaníu og í kjölfarið er líklegt að stuðningur verði veittur við ítarlega jarðhitaleit á einu svæði ásamt aðstoð við þjálfun heimamanna.

Beiðni hefur einnig borist frá Kómoreyjum, og hefur ÞSSÍ átt samtal við Alþjóðabankann í því samhengi. Ekki var unnið að beinum undirbúningi verkefna á Kómoreyjum á árinu.

Umhverfisstofnun SÞ sendi ÞSSÍ beiðni um samstarf við framkvæmd jarðhitarannsóknar í Erítreu, og var gengið frá samningi þess efnis í lok árs 2014. Miklir möguleikar eru til virkjunar jarðhita í Erítreu. Við lok þessa verkefnis, þegar öll nauðsynleg gögn liggja fyrir og að tilraunaborunum kemur mun verkefnið einnig aðstoða stjórnvöld í Erítreu við að ganga frá fjármögnunarumsóknum til jarðhitasjóðs Afríkusambandsins og þýska þróunarbankans. Þannig er vonast til að samfella náist í þróun auðlindarinnar.

Annað samstarf

Samráðsfundur um jarðhitamál, haldinn á Íslandi 26.-28. maí 2014

Sem hluta af samstarfi við Afríkusambandið hélt ÞSSÍ árlegan fund veitanda þróunaraðstoðar á sviði jarðhita í Austur Afríku, í lok maí á Íslandi. Fimm fulltrúar komu frá Afríkusambandinu m.a. Commissioner for Infrastructure and Energy. Einnig sendu helstu veitendur þróunaraðstoðar fulltrúa, þar á meðal Alþjóðabankinn, Evrópusambandið, Þýski þróunarbankinn, Afríski þróunarbankinn og þróunarsamvinnustofnanir Bandaríkjanna og Japan, USAID og JICA. Samstarfslönd í Afríku sendu einnig 1-2 fulltrúa á fundinn sem kostaður voru af ÞSSÍ og NDF. Í kjölfar fundarins var svo haldið tveggja daga námskeið, sem Jarðhitaskólinn hélt utan um, þar sem sérstaklega var hugað að jarðhitatengdum málum sem snerta veitendur þróunaraðstoðar. Námskeiðið var því liður í þeirri viðleitni að auka áhuga og þekkingu annara veitenda þróunaraðstoðar á jarðhita.

ÞSSÍ á einnig í samstarfi við Afríkusambandið (AUC) um fleiri mál er varða jarðhitaþróun í Afríku, og undir lok ársins kom beiðni frá AUC um að veittur yrði tæknilegur stuðningur fyrir lönd til að fullgera og bæta umsóknir sínar um styrki til jarðhitasjóðs AUC og þýska þróunarbankans. Með því að aðstoða lönd við að auka gæði umsókna aukast líkur eðlilega á fjármögnun, og verkefnið nær þannig að aðstoða við að hreyfa meira fjármagn til jarðhitamála í álfunni.

Mat á möguleikum til raforkuframleiðslu á lághitasvæðum

Mikilvægt er að huga að möguleikum þeirra ríkja, sem ekki hafa háhita, til að nýta jarðhitaauðlindir, jafnvel þó svo um tiltölulega lágan hita sé að ræða. Sem hluta af þeirri viðleitni hefur verkfræðistofan Verkís unnið skýrslu fyrir ÞSSÍ um raforkuframleiðslu á lághitasvæðum með tvívökvavirkjunum. Þar er m.a. reiknað út möglegur framleiðslukostnaður raforku á kílóvattstund út frá mismunandi hitastigi. Vonast er til að þessi skýrsla muni verða gagnlegt innlegg í umræðuna í þeim löndum þar sem ekki er um háhita að ræða. Ljóst er að það munar um hvert megavatt í mörgum löndum Afríku, og skýrslan leiðir í ljós að við hitastig í kringum 120-130 gráður má framleiða orku á samkeppnishæfu verði miðað við brennslu jarðefnaeldsneytis, og að sjálfsögðu mun umhverfisvænni.  Verkís kynnti niðurstöður skýrslunnar á fundi Alþjóðabankans um miðjan október og á Argeo ráðstefnunni í Tansaníu skömmu síðar.

Mat á möguleikum til nýtingar jarðhita til þurrkunar landbúnaðarafurða í Afríku

Sem hluta af þeirri viðleitni að skoða nýtingarmöguleika jarðhita á lághitasvæðum bað ÞSSÍ MATÍS um að gera frumúttekt á möguleikum til að nýta jarðhita til þurrkunar á landbúnaðarafurðum í Afríku, og þá sérstaklega í Rúanda og Kenía. Skýrslunum  verður skilað fyrri hluta ársins 2015. Vonast er til að þessi úttekt skapi grundvöll fyrir frekari og þá ítarlegri skoðun á möguleikum til þurrkunar með jarðhita, til tilvísun til tiltekinna svæða og afurða.

Gagnagrunnur fyrir jarðhitaverkefni í Austur Afríku í samstarfi við UNEP

Á árinu 2014 var lokið vinnu við jarðhitagagnagrunn fyrir Austur Afríku. UNEP hefur haft verkefnið með höndum með stuðningi frá ÞSSÍ. Á síðustu mánuðum hefur enn frekar orðið ljóst mikilvægi þess að safna á einn stað upplýsingum um jarðhitasvæði, verkefni, skýrslur, og þá aðila sem koma að jarðhitamálum á svæðinu. Gagnagrunnurinn mun svara þessari þörf og skapa mikilvægt aðgengi að gögnum fyrir alla hlutaðeigandi aðila. Síðustu skrefin í yfirfærslu gagnagrunnsins til UNEP voru í október 2014, og hafa séfræðingar þeirra nú að fullu tekið við ábyrgð á rekstri og utanumhaldi. Gagnagrunnurinn var formlega opnaður á Argeo C5 ráðstefnunni í Arusha í október af Einar Gunnarssyni, þáverandi ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins. ÞSSÍ á einnig í góðu samstarfi við UNEP um ýmislegt sem snýr að svæðasamstarfi í Austur Afríku, s.s. þjálfunarmálum. 


Jarðhiti