• Mannfjöldi
 • 40 milljónir
 • Sæti á lífskjaralista SÞ
 • 164
 • Framlag ÞSSÍ 2014
 • 362 milljónir
 • Flatarmál241,551 km2
 • Höfuðborg
 • Kampala
 • Lífslíkur
 • 59,2 ár
  • Hlutfall fátækra
  • 38%

 • Hagvaxtarprósenta
 • 4,5%

Sjá lykiltölur

Úganda

Inngangur


Hagvöxtur í Úganda mældist 4,9% á árinu 2014 sem var hækkun úr 3,9% frá árinu 2013. Veikleikar í heimshagkerfinu drógu úr frekari hagvexti, einkum vegna áhrifa á eftirspurn eftir úgönskum útflutningsvörum og innflæði beinna erlendra fjárfestinga. Mat Seðlabanka Úganda gerði ráð fyrir 0,7% minni hagvexti á árinu 2014 vegna skerðingu á framlögum þróunaraðstoðar frá framlagsríkjum. Ársverðbólga lækkaði niður í 4,3% að meðaltali í desember 2014 úr 5,5% í desember 2013. Hjöðnun verðbólgunnar mátti að hluta til rekja til lækkunar á matvælaverði heimafyrir vegna góðrar uppskeru, lægra heimsmarkaðsverðs á matvælum og því að verðhækkun á viðskiptavörum fór minnkandi sem orsakaðist meðal annars af lækkun á hráolíuverði.

Þrátt fyrir að þing- og forsetakosningar muni ekki fara fram fyrr en á fyrri hluta árs 2016 hófst umtalsverður undirbúningur fyrir kosningarnar á árinu 2014 og víst er að óútreiknanlegt en viðburðaríkt ár er framundan í pólitíkinni í Úganda.

Museveni forseti samþykkti frumvarp sem takmarkar réttindi samkynhneigðra (AHA) í febrúar 2014 og þar með voru harðar refsingar gegn samkynhneigð lögfestar. Einnig var tjáningarfrelsi, frelsi til funda og frelsi til að mynda félag með öðrum skert. Löggjöfin gegn samkynhneigð vakti upp hörð andmæli frá veitendum þróunaraðstoðar sem líta á það sem árás á mannréttindi. Fáein framlagsríki skáru niður heildarframlög sín til Úganda en margir veitendur þróunaraðstoðar ákváðu að veita ekki beinan fjárlagastuðning til ríkisstjórnarinnar en finna í staðinn aðrar leiðir til að veita aðstoð. Í júní höfðu framlagsríki haldið eftir 118 milljónum Bandaríkjadala eða veitt þróunaraðstoð eftir öðrum leiðum í mótmælaskyni gegn ákvæðum löggjafarinnar. Þessi viðbrögð veitenda þróunaraðstoðar endurspegla aðgerðir sem teknar voru í kjölfar spillingarhneykslis á skrifstofu forsætisráðherrans (OPM) sem komst upp um á árinu 2013. Þetta leiddi til þess að ríkisstjórn Úganda neyddist til að endurskoða fjárhagsáætlun sína fyrir fjárlagaárið 2014/15 og gera viðeigandi breytingar í ljósi niðurskurðar á beinum fjárlagastuðningi frá samstarfsaðilum Úganda á sviði þróunarsamvinnu. Í ágúst lýsti stjórnlagadómstóll Úganda því yfir að löggjöfin gegn samkynhneigð væri ógild vegna tæknilegra ástæðna en veitendur þróunaraðstoðar og erlendir fjárfestar eru enn varkárir, sérstaklega eftir að uppkasti að frumvarpi um „ónáttúrulegar kynlífsathafnir“ sem leggur áherslu á hvers konar kynningu og áróður fyrir samkynhneigð var lekið, því að það olli að nýju ótta um að þingið myndi samþykkja frumvarp sem felur í sér mismunun.

Þróunarsamvinna ÞSSÍ og Úganda

Þróunarsamvinna Íslands og Úganda fyrir árið 2014 byggðist á samstarfsáætlun um þróunarsamvinnu á milli landanna tveggja en gerð hennar lauk árið 2013. Samstarfsáætlunin nær yfir tímabilið 2014 til 2017 og leggur áherslu á samvinnu við samfélög í héruðum sem byggja afkomu sína á fiskveiðum. Samkvæmt áætluninni er gert  ráð fyrir að fjárframlög verði á bilinu 16,4 til 21,9 milljónir Bandaríkjadala á tímabilinu. Fjárframlög til Úganda á árinu 2014 voru í lægri kantinum miðað við þetta.

Samkvæmt samstarfsáætluninni var áhersla lögð á áframhaldandi samstarf við héraðsyfirvöld í Kalangala héraði og undirbúningur hófst fyrir nýtt samstarf við héraðsyfirvöld í Buikwe héraði. Þessi tvö héruð hafa verið tilgreind sem tveir helstu samstarfsaðilar Íslands í Úganda. Árið 2014 var síðasta árið sem stuðningi var veitt við fiskigæðaverkefnið. Þar að auki var fullorðinsfræðsluverkefninu endanlega lokið í áföngum á árinu. 

Stuðningur við fiskimál

Stuðningur við verkefni um gæðavottun fyrir markaðssetningu fiskafurða (QAFMP)

Stuðningur við fiskgæðaverkefnið sem er undir fiskideild (DFR) landbúnaðar-, dýraiðnaðar- og fiskimálaráðuneytisins (MAAIF) hafði að markmiði að bæta lífsviðurværi samfélaga sem byggja afkomu sína á fiskveiðum í völdum héruðum í Úganda með því að auka gæði og öryggi fiskafurða fyrir innanlands- og útflutningsmarkaði og þar með auka magn fiskafurða sem fer á markað, bæði innanlands og erlendis, með því að draga úr aflarýrnun. Eftir því sem verkefninu vatt fram og í samræmi við þann lærdóm sem draga mátti af framkvæmd þess var aukin áhersla lögð á að koma upp vatns- og salernisaðstöðu í þeim samfélögum sem verkefnið náði til.

Verkefninu var nánast lokið í lok desember 2013 en á seinni hluta ársins óskaði fiskideild ráðuneytisins eftir viðbótaraðstöðu við tvo aðra löndunarstaði. Eftir að hafa metið beiðnina samþykkti ÞSSÍ að framlengja fiskigæðaverkefnið um eitt ár og byggja til viðbótar vatns- og salernisaðstöðu á tveimur stöðum í tengslum við meðhöndlun á fiski sem og auka aðgang að drykkjarvatni fyrir almenna samfélagsnotkun á löndunarstöðunum Kawongo í Kayunga héraði og Akampala í Kaberamaido. Verkefnislok eru áætluð í lok 2014. Byggingaframkvæmdir hófust samkvæmt áætlun í júní og var lokið í síðasta ársfjórðungi 2014 eins og áætlað hafði verið. 

Öllum öðrum þáttum verkefnisins var lokið á árinu 2013 eins og gert var grein fyrir í ársskýrslu síðasta árs. Lokamat á fiskigæðaverkefninu fer fram á árinu 2015.

Marghliða stuðningur

Stuðningur við Kalangala héraðsþróunarverkefnið (KDDP


Kalangala héraðsþróunarverkefnið er marghliða verkefni sem ÞSSÍ styður með það að markmiði að stuðla að bættri lífsafkomu með sjálfbærum hætti og jafnræði í efnahags- og félagslegri uppbyggingu í Kalangala héraði í Úganda. Eins og upphaflega var áætlað mun verkefninu ljúka um miðbik árs 2015 eftir tíu ára tímabil. Heildarnálgun verkefnisins felst í því að styðja héraðsstjórnvöld í Kalangala við að hrinda í framkvæmd þróunaráætlun sinni í fiskimálum, menntun, heilbrigði (2006-2010) og uppbyggingu ferðaþjónustu (2011-2014) ásamt því að efla stjórnsýslu héraðsins og þar með stuðla að því að  íbúum héraðsins sé veitt betri almenningsþjónusta.

Nokkrar tafir urðu í framkvæmd verkefnisins í byrjun árs 2014. Í lok annars ársfjórðungs voru verkþættir verkefnisins meira og minna aftur komnir á rétt ról eftir jákvæð afskipti frá ráðuneyti sveitastjórnarmála. Í lok ársins mátti greina töluverðar framfarir í frammistöðu Kalangala héraðsyfirvaldanna sem líklega munu endast fram yfir líftíma héraðsþróunarverkefnisins.  

Á árinu voru verkþættir í flestum geirum sem hlutu stuðning frá verkefninu framkvæmdir samkvæmt áætlun. Byggingaþátturinn endurspeglaði hversu vel á veg framkvæmdirnar voru komnar þar sem tímabilið eftir að byggingu lýkur og verktaki er samningsbundinn til að gera við galla sem gætu hafa komið í ljós á vinnu hans endaði og greiðslu sem haldið er eftir þar til að verki loknu var greidd út, aðallega fyrir vinnu sem  tengdist fiskimálum. Byggingu á 20 þurrkhjöllum fyrir fisk lauk á árinu og einnig voru byggðir þrír reykofnar. Bygging á tveimur reykofnum til viðbótar stóð enn yfir í árslok. Ennfremur voru reistar skólastofuálmur við þrjá skóla, kennarahús á tveimur stöðum og sex svefnálmur við grunnskóla voru gerðar upp.  

Í júlí ákvað stýrihópur héraðsþróunarverkefnisins að fresta framkvæmd verkþáttarins um uppbyggingu ferðamála vegna langvarandi erfiðleika við framkvæmd hans og fjármunum var endurráðstafað til menntamála.

Áframhaldandi stuðningur var veittur til uppbyggingar á getu og þekkingu og til að bæta þjónustu á sviði stjórnsýslu, fiskimála og menntamála, þar á meðal: efling á starfsgetu héraðsyfirvalda í áætlanagerð og stjórnun; vöktun og eftirlit; aðstoð við endurskoðun sem fer fram ársfjórðungslega; útvarpsdagskrá héraðsins; gæðatrygging fiskiafurða; rekstur og viðhald á vatns- og salernisaðstöðu; umhverfisskoðun og –úttekt; samfellt árangursmat á frammistöðu nemenda í grunn- og gagnfræðaskólum; stuðla að tómstundastarfi utan námskrár eins og íþróttum og leiklist; efla eftirlit með skólum; dreifa grunnnámsgögnum og kennsluefni til grunnskóla og sjá gagnfræðaskólum fyrir skólabúnaði.

Eftirlit og úttekt á kennslubókabirgðum fyrir grunnskóla var framkvæmd á árinu 2014. Úttektin sýndi heildarfjölda kennslubóka og núverandi ástand á hlutfalli kennslubóka á hvern nemanda sem er einn af mælikvörðunum á gæði menntunar sem verkefnið mælir. Til að fylgja eftir niðurstöðum úttektarinnar óskuðu héraðsyfirvöld í Kalangala eftir aukafjármagni til kaupa á kennslubókum í þeim tilgangi að bæta hlutfall kennslubóka og nemenda úr 1:3 í 1:1 sem myndi þá vera í fyrsta sinn sem þeim árangri væri náð í Úganda. ÞSSÍ samþykkti beiðnina og framkvæmdinni sem hófst í desember á að vera lokið um miðbik árs 2015.

Þetta átak í menntamálum í Kalangala hefur átt gríðarmikinn þátt í að bæta hlutfall grunnskólanema sem standast próf. Í samræmdu lokaprófunum lenti Kalangala hérað í 12. sæti af 118 héruðum en var í 38. sæti á árinu 2012 og 24. sæti á árinu 2013. Áður en ÞSSÍ hóf að styðja menntamál sem þátt af héraðsþróunarverkefninu var héraðið yfirleitt á meðal þeirra fimm neðstu sem voru með lakastan árangur í Úganda.

Tveir læknanemar sem hafa hlotið styrk frá ÞSSÍ síðan 2009 í gegnum hérðasþróunarverkefnið luku háskólanámi á árinu 2014 og hófu eins árs starfsþjálfun á Mulago landsspítalanum og Naguru sjúkrahúsinu í Kampala. Báðir nemarnir munu snúa aftur til Kalangala og hefja þar störf að lokinni starfsþjálfuninni.

Þar sem Kalangala héraðsþróunarverkefninu á að ljúka um mitt ár 2015 fóru fram umræður innan stýrihóps verkefnisins um það hvernig best væri að festa í sessi ávinninginn sem hefur náðst og ganga úr skugga um að verkefnið verði sjálfbært svo að áhrifin vari eftir að tíu ára verkefnatímabilinu lýkur. Það var ákveðið að láta framkvæma rýni  sem verður höfð að leiðarljósi um það hvernig hægt verði að draga smám saman úr stuðningi við héraðið, bæði hvað varðar verkþætti og tímalengd. Lokið var við rýnina fyrir árslok 2014 og kynnt voru raunhæf og hagnýt stigminnkandi skref sem á að taka við fyrirhuguð lok verkefnisins. Samstarfsaðilarnir taka ákvörðun fyrir miðbik árs 2015 um það hvernig þessu verður háttað.

Stuðningur við samfélagsþróunarverkefni í fiskimannaþorpum Buikwe héraðs (BFCDP)

Undirbúningur fyrir samstarf við Buikwe hérað var í fullum gangi á árinu og fór fram í samræmi við áherslur samstarfsáætlunar Íslands og Úganda. Samstarfssamningur fyrir þróunarverkefni í Buikwe fiskimannasamfélögum var undirritaður í október 2014 af framkvæmdastjóra ÞSSÍ, ráðuneytisstjóra ráðuneytis fjármála, skipulagsmála og efnhagslegrar þróunar og æðsta yfirmanni Buikwe héraðsstjórnarinnar. Samstarfssamningurinn lýsir heildarrammanum  fyrir stuðning ÞSSÍ við verkefnið og munu verkþættir sem lúta að vatns,- salernis- og hreinlætismálum, menntamálum, fiskimálum og heilbrigðismálum hljóta stuðning.

Faglegur grundvöllur verkefnisins byggir á niðurstöðum þriggja matsgerða á stöðunni á þremur sviðum, þ.e. heilbrigðis-, mennta- og fiskimála sem eru tilgreind sem megináherslusvið í þróunarsamvinnu Íslands í Úganda  samkvæmt samstarfsáætlun þjóðanna. Algengur samnefnari allra stöðumatanna var mikilvægi vatns- og salernismála sem talin voru skipta sköpum á öllum þremur sviðunum. Einnig leiddu samtök úgandskra sveitastjórna mat á starfsgetu stofnana héraðsstjórnarinnar í Buikwe til lykta í mars 2014.

Vinnusmiðja var haldin í Entebbe í júní 2014 þar sem stefnumiðuð áætlun fyrir þróunarverkefnið í þágu fiskimannasamfélaga var mynduð á grundvelli stöðumatanna. Þróunaráætlun Buikwe héraðs fyrir samfélagsþróun fiskimannaþorpa var lokið í ágúst og vinna hófst við gerð þróunaráætlana í einstökum geirum, fyrst af öllu í vatns- og salernismálum sem voru sett í forgang. ÞSSÍ samþykkti í september að verða við beiðni héraðsstjórnvalda í Buikwe um að veita stuðning til að efla starfsgetu þeirra fyrir framkvæmd verkefnastoðarinnar til að tryggja að þau verði í stakk búin til að mæta þeim þörfum sem munu skapast við framkvæmdina og styrkja getu yfirvalda almennt til að veita bætta þjónustu í lykilþáttum sínum. Áframhaldandi stuðningur á þessu sviði verður veittur á árinu 2015.

Sökum þess að starfsgetu er verulega ábótavant í skipulagsdeild héraðsins, sem olli miklum töfum í undirbúningsferlinu, var ákvörðun tekin um að flýta undirbúningi fyrir stuðning við verkþáttinn á sviði vatns- og hreinlætismála og veita tæknilega aðstoð við að undirbúa gerð héraðsþróunaráætlunarinnar í vatns- og hreinlætismálum fyrir samfélagsþróun fiskimannaþorpa í Buikwe og ráða ráðgjafa til að vinna náið með skipulagsdeildinni. Einnig lauk óháðu mati á fjármála- og bókhaldskerfi Buikwe héraðsyfirvalda í desember 2014.

Síðari hluta nóvember lauk vinnu við gerð verkþáttinn sem snýr að vatns- og salernismálum og hann var formlega samþykktur af öllum viðkomandi stofnunum héraðsyfirvalda. Að því loknu lagði Buikwe héraðsstjórnin inn beiðni til umdæmisskrifstofu ÞSSÍ í Úganda um stuðning við verkþáttinn og var beiðnin send áfram í desember til aðalskrifstofu ÞSSÍ sem metur tillöguna. 

Stuðningur við menntamál

Stuðningur við fullorðinsfræðsluverkefni Úganda (FALP)

Stuðningi við fullorðinsfræðsluverkefnið (FALP) þar sem lögð var áhersla á að efla getu kynja-, atvinnu- og félagsmálaráðuneytisins til að hrinda í framkvæmd  fimm ára aðgerðaáætlun ríkisins í fullorðinsfræðslu (NAPAL) 2010/11-2015/16 lauk endanlega á árinu 2012. Eftirfylgni með fjármunum sem höfðu verið settir til hliðar vegna verkþátta sem átti að framkvæma hefði stefna í fullorðinsfræðslu verið samþykkt af ríkisstjórninni lauk árið 2013. Stefnan var hins vegar ekki samþykkt fyrr en snemma árs 2014. Kynja-, atvinnu- og félagsmálaráðuneytið lagði fram beiðni í maí 2014 um stuðning við prentun og dreifingu á fullorðinsfræðslustefnu Úganda sem ÞSSÍ samþykkti. Ráðuneytið tók að sér að framkvæma umsamda verkþætti sem áætlað er að ljúka fyrir lok mars 2015 og leggja fram skýrslu með greinargerð um það hvernig fjármununum var varið.  

Þverlæg málefni

Jafnrétti

Jafnrétti er tilgreint í samstarfsáætlun Íslands og Úganda sem þverlægt málefni sem á að samþætta inn í alla verkþætti þróunarsamvinnu Íslands.

Meginvandinn sem varðar kynjamál í fiskimannasamfélögum er eftir sem áður að konum er ýtt til hliðar þegar kemur að ákvarðanatöku, stjórnun og notkun á fiskiauðlindinni. Konur eru veikasti hlekkurinn í verðmætakeðju fiskimála. Aðaláherslusvið samvinnunnar við Úganda er á fiskimannasamfélög á héraðsvísu og ÞSSÍ veitir þar af leiðandi hlutverkunum kvenna sérstaka athygli. Gagnlegur lærdómur hefur hlotist af fyrri verkefnum og verkefnastoðum ÞSSÍ í Úganda sem verður hafður að leiðarljósi í nýja samstarfinu við Buikwe hérað. Taka verður á þeim þáttum enda undirstrikuðu kannanir á stöðunni í heilbrigðis- og menntamálum hversu margslungin og flókin samskipti kynjanna eru.

Í undirbúningsferlinu fyrir samstarfið við Buikwe hérað kom ÞSSÍ á tæknilegu samstarfi við skrifstofu UN Women í Úganda. Sérfræðingar frá samtökunum framkvæmdu kynjagreiningu á öllum stöðumötunum með því að nota viðurkenndan kynjagátlista. Álíkar kynjagreiningar verða gerðar á öllum verkefnaskjölum, sú fyrsta fyrir vatns,- salernis- og hreinlætisverkþáttinn snemma árs 2015.

Í kjölfar námskeiðs í kynjamálum sem haldið var árið 2013 fyrir starfsfólk umdæmisskrifstofu ÞSSÍ í Úganda og jafnréttisfulltrúar frá Buikwe og Kalangala héruðum tóku þátt í, var ákveðið árið 2014 að bjóða héraðsyfirvöldum frá báðum héruðum að senda styrkþega til að taka þátt í sex mánaða námskeiði alþjóðlega Jafnréttisskólans á Íslandi sem er hluti af neti Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Bæði héruðin tilnefndu samfélagsþróunarfulltrúa til að taka þátt í námskeiðinu 2015 en Buikwe kandídatinn varð að hætta við á síðustu stundu og var ekki hægt að finna staðgengil með svo stuttum fyrirvara. Þess er vænst að Buikwe hérað geti tilnefnt styrkþega til að taka þátt í námskeiðinu sem fer fram árið 2016.

Umhverfismál

Samkvæmt samstarfsáætlun um þróunarsamvinnu Íslands og Úganda er umhverfisleg sjálfbærni þverlægt málefni líkt og jafnrétti. Þar af leiðandi verður tekið tillit til málefna sem varða umhverfislega sjálfbærni og þau samþætt allri þróunarstarfsemi ÞSSÍ.

Í samstarfsáætlunin segir á bls. 9: „Sambandið á milli eyðingu náttúruauðlinda og öflun lífsviðurværis gerir það nauðsynlegt að fiskistofnar séu betur nýttir, að fólk geti aflað sér lífsviðurværis með fjölbreytilegum hætti, atvinnutækifæri séu aukin í fiskimannasamfélögum og heilsugæsla bætt (grunnheilbrigðisþjónusta, einkum fyrir mæður og börn, fyrirbygging HIV/alnæmi og umönnun, sem og aðgangur að drykkjarvatni og hreinlætisaðstöðu) sem og menntun (grunnmenntun og fullorðinsfræðsla og einnig uppbygging faglegrar sérþekkingar með verklegu og fagnámi).“ Sjálfbærni fiskiauðlindarinnar í Úganda er mest aðkallandi umhverfismálið og snertir verkefnin sem studd eru af ÞSSÍ. Sjálfbærni fiskiauðlindarinnar  er ein af grunnstoðum þróunarsamvinnu Íslands í Úganda sem hefur að markmiði að bæta lífsafkomu fiskimannasamfélaga.

ÞSSÍ hefur hlotið dýrmæta reynslu af bæði Kalangala héraðsþróunarverkefninu (KDDP) og fiskgæðaverkefninu (QAFMP) varðandi það hvernig á að takast á við aflarýrnun og hvernig hægt er að bæta fjárhagslega afkomu af fiskveiðum í þágu nærsamfélagsins, sérstaklega til þeirra fátækustu. Bæði verkefnin hafa einnig dregið dæmi fram í dagsljósið um mikilvægi þess að hafa aðgang að hreinu vatni og viðunandi salernisaðstöðu um leið en margvíslegur annar lærdómur er líka dreginn af framkvæmd verkefnanna.