• Mannfjöldi
 • 27 milljónir
 • Sæti á lífskjaralista SÞ
 • 178
 • Framlag ÞSSÍ 2014
 • 320 milljónir 
 • Flatarmál799,380 km2
 • Höfuðborg
 • Mapútó
 • Lífslíkur
 • 50,2 ár
  • Hlutfall fátækra
  • 59,6%

 • Hagvaxtarprósenta
 • 7,4%
Sjá lykiltölur

Mósambík

Inngangur

Mósambík er í hópi þeirra landa í Afríku sem hafa haft hvað mestan hagvöxt síðasta áratuginn. Árið 2014 var engin undantekning, hagvöxtur var um 7,5%. Þrátt fyrir þetta vermir Mósambík 10. neðsta sætið á lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna (UNDP). Tvöfalt hagkerfi hefur verið að myndast í landinu með mikilli erlendri fjárfestingu sem hefur að mestu verið bundin við námuiðnað, eins og kola-, gas- og olíuiðnað, en í litlum tengslum við aðra hluta hagkerfisins. Lítil stétt hátekju- og millitekjuhóps hefur verið að festa rætur en um 80% íbúanna búa enn í sveitum og stunda sjálfsþurftarbúskap þar sem framleiðni er mjög lítil. Aðeins lítið brot landsmanna hefur formlegt starf, menntunarstig er lágt, innviðir veikir og fátækt er gríðarlega útbreidd og djúpstæð. Landið hefur því enn mikla þörf fyrir utanaðkomandi stuðning.

Sami flokkurinn, Frelimo, hefur setið á valdastóli í fjóra áratugi. Borgarastyrjöldin sem stóð yfir frá 1976-1992 hafði mikil eyðileggjandi áhrif og skýrir að hluta veika stöðu landsins enn þann dag í dag. Síðan friður komst á hafa orðið ýmsar framfarir almenningi til hagsbóta. Uppbygging hefur verið á innviðum samfélagins, og má þar nefna að flest börn komast nú í skóla, þótt gæði menntunarinnar sé enn verulega ábótavant. Landið er mjög stórt og uppskipt eftir pólitískum línum sem hefur sitt að segja um að hingað til hefur ekki tekist að lyfta meirihluta landsmanna upp úr fátæktinni.

Þann 15. október voru haldnar þing- og forsetakosningar. Frelimo bar sem fyrr sigur úr býtum og forsetaframbjóðandi flokksins, Filipe Nyusi, var kjörinn nýr forseti landsins. Kosningarnar voru að mestu friðsamlegar en þó var eitthvað um róstur í mið- og norðurhéruðum landsins þar sem helsti stjórnarandstöðuflokkurinn Renamo nýtur mikils stuðnings. Margt bendir til að friðurinn á milli landshluta sé enn brothættur.

Þróunarsamvinna ÞSSÍ

ÞSSÍ hefur starfað í Mósambík í tvo áratugi og hefur á þeim tíma einkum stutt uppbyggingu sjávarútvegs með fæðuöryggi sem meginmarkmið en einnig beint sjónum að þjónustu við hina fátæku, einkum í menntun og lýðheilsu. Helstu verkefni ÞSSÍ á árinu 2014 voru þríhliða samfjármögnunarverkefni með Noregi og mósambískum fiskimálayfirvöldum, fullorðinsfræðslu-verkefni í Inhambane fylki með menntamálayfirvöldum landsins sem lauk á árinu og loks var hafinn undirbúningur og byrjað á samstarfi við UNICEF í Mósambík um vatns- og salernismál í Zambézíufylki.

Þá var öflugt norrænt samstarf í Mósambík á árinu. Í lok ágúst fór fram í Maputo alþjóðlega vörusýningin FACIM (Maputo International Trade Fair) . Þrátt fyrir að ekki séu íslensk fyrirtæki í Mósambík var ákveðið að Ísland tæki þátt ásamt sendiráðum hinna fjögurra Norðurlandanna með sameiginlegan bás þar sem löndin voru kynnt og verkefni þeirra í Mósambík. Einnig voru níu norræn fyrirtæki með bása. Þótt Norðurlöndin hafi áður tekið þátt í FACIM tóku þau að þessu sinni í fyrsta skipti þátt sem ein heild og fengu á þeim grundvelli viðurkenningu í flokknum „Þátttökulönd í fyrsta skipti“ en matið var byggt á hönnun, kynningarefni og starfsemi á sýningunni. Verðlaunin eru einnig viðurkenning á samvinnu norrænu sendiráðanna og stofnana þeirra við undirbúning og þátttöku í sýningunni.

Margvíslegt annað norrænt samstarf og samráð átti sér stað, m.a. var hafinn undirbúningur fyrir norræna ráðstefnu um hagvöxt í þágu jöfnuðar í Mósambík sem halda á vorið 2015. Norðurlöndin afhentu einnig sameiginlega afstöðu (démarche) vegna mótunar nýrra þróunarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna til mósambískra stjórnvalda 27. nóvember.

Umdæmisstjóraskipti urðu í Mósambík um mitt ár. Ágústa Gísladóttir kvaddi Mósambík en við starfinu tók Þórdís Sigurðardóttir. Á sama tíma lauk Dulche Mungoi verkefnisstjóri fullorðinsfræðsluverkefnis störfum hjá stofnuninni.

Fiskimál: Verkefnastoð í fiskimálum 2013-2017

Í árslok 2013 var samið um annan áfanga í stuðningi Noregs og Íslands við áætlun mósambískra stjórnvalda í fiskimálum til 2017. Heildarfjárhagsáætlunin fyrir verkefnið hljóðar upp á 30,2 milljónir Bandaríkjadala, þar af skuldbindur Ísland sig til að greiða 4 milljónir, Noregur 25 milljónir og Mósambík 1,2 milljónir.

Áætlunin er metnaðarfull og byggir á sex stoðum sem hver um sig skiptist í verkþætti. Þær eru:

 • Efling fiskframleiðslu með smábátaveiðum og fiskeldi.
 • Sjálfbær fiskveiðistjórnun – svæðisbundin og á landsvísu.
 • Skipulag og eftirlit fiskigeirans – upplýsingaöflun og vöktun.
 • Veiðieftirlit og landhelgisgæsla – svæðisbundin og á landsvísu.
 • Þverlæg málefni í fiskisamfélögum: saga og menning fiskigeirans, alnæmisvarnir, jafnréttis- og umhverfismál.
 • Samræming áætlunarinnar og verkefnastjórnun.

Starfsmenn og stjórnendur fiskimála njóta góðs af áætluninni með bættri vinnuaðstöðu, þjálfun og menntun. Kallað er eftir utanaðkomandi ráðgjöf þar sem þess er þörf og áhersla er lögð á að leitast eftir suður/suður samstarfi, einkum við fiskeldisþjóðir í Asíu og Brasilíu, auk samstarfsins við Noreg og Ísland. Gert er ráð fyrir að með svo heildstæðri áætlun verði hægt að framfylgja fyrirætlunum stjórnvalda í málaflokknum með markvissari hætti, auka fæðuöryggi og draga úr fátækt í þeim samfélögum sem stuðningurinn beinist að.

Framkvæmdir fóru seint af stað á árinu þar sem verk- og kostnaðaráætlun verkefnisins var ekki samþykkt fyrr en undir lok fyrsta ársfjórðungs. Meginástæðan var sú að Norðmenn urðu að skera niður skuldbindingar sínar fyrir árið um 30%. Því þurfti að endurskoða áætlunina strax fyrir framkvæmdaárið og forgangsraða verkþáttum. Bundnir samningar við ráðgjafa og þjónustuaðila vegna reksturs á veiðieftirlitsskipi, byggingu rannsóknar- og fiskeldisstöðvar og fiskisafns, auk annarra minni samninga voru settir í forgang. Framkvæmdir gengu ágætlega þegar inn í árið var komið og flestallir verkþættir komust til framkvæmda.

Framgangur einstakra verkþátta

Veiðieftirlit og landhelgisgæsla, verkefni á vegum Fiskeftirlitsstofnunar: Í febrúar fór fram óháð úttekt á veiðieftirlitinu og útgerð varðskipsins Antilas Reefer. Í úttektarteyminu voru  Einar H. Valsson skipherra og Kato Stokkan norskur öryggismálasérfræðingur. Helstu ályktanirnar þeirra voru eftirfarandi:

Útgerð skipsins, sem útvistuð er til einkafyrirtækis, er í góðum höndum en kostnaðarsöm og æskilegt væri að bjóða reksturinn út á nýjan leik.

Þörf er á að bæta undirbúning og skipulag eftirlitsins, þ.e. hvert eftirlitsskipið fer og hvenær og bent á að eitt varðskip muni aldrei geta haft fullnægjandi eftirlit með ólöglegum veiðum í landhelginni. Æskilegt væri að hafa einnig flugvél til afnota – sérstaklega á túnfiskvertíðinni.

Framkvæmd eftirlits með fiskiskipum á rúmsjó fer fram eftir alþjóðlegum stöðlum en þó má bæta nokkur tæknileg útfærsluatriði.

Mælt er með að öll fiskiskip með leyfi til veiða í landhelginni beri skylda til að hafa VMS/AIS um borð (tilkynningaskylda og upplýsingagjöf) og jafnframt er mælt með aukinni samvinnu við nágrannaríkin varðandi eftirlit með ólöglegum veiðum – sérstaklega hvað varðar túnfiskveiðiskip – enda er túnfiskur flökkustofn.

Að lokum lagði teymið til stóraukið eftirlit með strandveiðum.

Fiskimálasafnið: Lokafangi á byggingu menningar- og sögusafns fiskimála stóð yfir á árinu. Safnið var opinberlega opnað fyrir almenning af forseta landsins þann 13. nóvember. Markar það ákveðin tímamót í menningarsögu Mósambík þar sem þetta er fyrsta safnið sem opnar í sögu lýðveldisins. Fyrsta sýningin var þegar sett upp og haldnar margvíslegar samkomur. Stuðningur úr verkefninu á árinu 2015 verður við rekstraráætlun og kynningarefni, auk þjálfunar á starfsfólki. Verður það lokakaflinn í stuðningi við safnið. Mósambíska ríkið hefur alfarið með rekstur þess að gera.

Fiskeldis- og rannsóknarsetrið í Mapapa (CEPAQ): Bygging setursins stóð yfir á árinu en töluverðar seinkanir urðu vegna rigninga í upphafi árs og ljóst að fyrsta áfanga byggingarinnar yrði ekki lokið í nóvember eins og áætlað var. Nú er gert ráð fyrir að verkinu ljúki um mitt ár 2015. Byrjað var að safna seiðum til tilraunaræktunar – bæði innanlands og frá Tælandi (Mossambicus og Niloticus Broodstock). Fyrstu tjarnirnar voru komnar í notkun fyrir næsta regntímabil og byrjað var með tilraunaræktunina. Þjálfaðir voru sex sérfræðingar sem starfa munu að uppbyggingu og þróun setursins. Þjálfunin er skipulögð af norskum ráðgjöfum hjá CDCF og fór fram bæði á vettvangi og í Brasilíu. Einn megináhættuþáttur verkefnisins er skortur á innlendri þekkingu og reynslu til að þróa setrið og tryggja gæði framleiðslunnar. Töluverðar seinkanir á þróunarhlutanum hafa átt sér stað sem tengja má þungri stjórnsýslu í landinu. Vöktun á verkefninu hefur verið efld og unnið er að því að setrið verði sjálfstæð rekstrareining til að auka skilvirkni og starfshæfni þess.

Á öðrum framkvæmdastjórafundi  ársins sem haldin var í nóvember var ákveðið að þrengja verkefnið, vissir verkþættir voru teknir út en áherslur lagðar verkþætti sem stuðla beint að meginmarkmiðinu um fæðuöryggi. Helsta ástæða breytinganna er sú að Norðmenn munu ekki ná að bæta upp niðurskurðinn frá árinu á árinu 2015. Stuðningi við veiðieftirlit og landhelgisgæslu verður hætt um mitt ár 2015 og mósambísk stjórnvöld taka yfir rekstur á eftirlitsskipinu. Megináherslan verður á fiskeldis- og rannsóknarstöðina CEPAQ, rannsóknir og gæðaeftirlit, gagnagrunn og fiskveiðitölur.

Menntamál: Fullorðinsfræðsluverkefni í Jangamo héraði

ÞSSÍ hefur stutt áætlanir stjórnvalda um að auka læsi fullorðinna í Mósambík síðan 2008 í Jangamo héraði í Inhambane fylki. Öðrum áfanga þessa verkefnis átti, samkvæmt samningi, að ljúka í árslok 2012 og úttekt á því hafði mælt með að færa áhersluna á ný héruð fylkisins. Á ársfundi verkefnisins í árslok 2012 varpaði menntamálaráðuneytið fram hugmynd um að nýta fjárfestinguna í Jangamo til að útrýma ólæsi í héraðinu á næstu þremur árum og ná þannig fram hámarksárangri. Þessari málaleitan var vel tekið og ákveðið á nota árið 2013 til undirbúnings þess átaksverkefnis. Einnig var ákveðið að skoða stuðning við samskonar átak í Vilankulo héraði sem menntamálayfirvöld höfðu áður bent á sem líklegt til að geta náð slíkum árangri.

Áætlanir stjórnvalda gerðu ráð fyrir 30% aukningu læsis á árabilinu 2010 – 2015. Vegna stuðnings ÞSSÍ við Jangamo og góðrar stöðu í Vilankulo, mátu ráðuneytið og fylkisyfirvöld það svo, að fullorðinslæsi í héruðunum tveimur hefði aukist um 20-30% frá því árið 2007 þegar Hagstofa landsins gerði síðast manntal, og því væri raunhæft að ná yfir 90% læsi á tveimur til þremur árum með sérstöku átaksverkefni.

Á undanförnum árum hafa áherslur stjórnvalda í menntageiranum í Mósambík verið á aukið aðgengi barna að grunnskólamenntun. Átak í byggingu á skólastofum og að búa þær húsgögnum hefur sýnt árangur í auknum fjölda barna skráðum í skóla landsins. Hins vegar hefur brottfall og færni grunnskólanemenda ekki farið að sama skapi batnandi. Niðurstöður úr rannsókn í menntageiranum á lestrar- og skriftarfærni grunnskólabarna sem lokið hafa þriðja bekk sýna að aðeins 6,3% barnanna á landsvísu kunna að lesa og skrifa. Ástandið er verst í norðurhéruðum landsins.

Til undirbúnings hins fyrirhugaða átaksverkefnis í fullorðinsfræðslu var ráðist í umfangsmikla grunngildarannsókn á læsi fullorðinna í Jangamo og Vilankulo. Athugað var læsi, skriftar- og stærðfræðifærni eftir aldri og kyni og staðfest með prófunum. Hagstofa Mósambík framkvæmdi rannsóknina sem náði til um 11% íbúa yfir 15 ára aldri. Hagstofan skilaði lokaskýrslu í mars 2014. Niðurstöður sýndu að í báðum héruðunum hafði læsi minnkað um 10% frá mælingum árið 2007. Í Jangamo fór læsi úr 58 % niður í 48 % og í Vilankulo úr í 56% niður í 46%. Einungis 60% af ungu fólki (16-20ára) reyndist læs. Leiða má að því líkum að núverandi menntakerfi, sem til þessa hefur lagt mesta áherslu á „aðgang fyrir alla“ nái ekki að vinna bug á ólæsi og að fullorðinsfræðslan hafi ekki undan til að breyta þeirri stöðu.

Forsendurnar fyrir framhaldsstuðning sem var mældur í læsi fullorðinna, hafði því dottið úr 70-80% niður fyrir 50%, og þar með komin forsendubrestur fyrir átaksverkefninu sem átti að útrýma ólæsi í héruðunum tveimur á svo skömmum tíma. Eftir samræður við stjórnvöld í upphafi 2014 ákvað ÞSSÍ að bíða eftir niðurstöðum fyrirhugaðrar úttektar á fullorðinsfræðsluáætlun stjórnvalda áður en frekari samstarfssamningar yrðu gerðir á því sviði. Vinnuhópur málaflokksins  vann verklýsingu fyrir áfangaúttekt á áætlun stjórnvalda fyrir fullorðinsfræðslu (2001-2015). Úttektin er kostuð af UNESCO og DVV-International og ÞSSÍ og er gert ráð fyrir niðurstöðum á fyrri árshelmingi 2015.

Vatns -, salernis- og hreinlætismál í Zambézíufylki

ÞSSÍ hóf á haustdögum samstarf við Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, í Mósambík um þriggja ára verkefni í vatns- og salernismálum í einu fátækasta fylki landsins, Zambézíu. UNICEF hefur sérhæft sig í þessum málaflokki og stuðningur ÞSSÍ við hann hvílir á vilja til að sameina krafta, samræma starfsemi og draga úr stjórnsýslukostnaði – með árangur, skilvirkni og sjálfbærni að leiðarljósi.

Aðeins 26% af 4,7 milljónum íbúum Zambézíufylkis hafa aðgang að hreinu vatni og ekki nema 6% að bættri salernisaðstöðu. Á framkvæmdatímanum er ætlunin að koma upp viðunandi salernisaðstöðu fyrir 300 þúsund íbúa í fimm héruðum í Zambézíu, bæta aðgengi 48 þúsunda að heilnæmu vatni og sjá til þess að 40 skólar með 14 þúsund skólabörn fái hreint vatn og salernisaðstöðu. Jafnframt er miðað að því að styrkja getu stjórnsýslustofnana í héraði til að annast þjónustuna. Sérstök áhersla er lögð á salernismál, sökum þess hve alvarlegur skortur er á slíkri aðstöðu í dreifbýli Zambézíu. Verkefnið snertir ýmsa aðra málaflokka eins og heilbrigðis-, mennta- og mannréttindamál.

Samkvæmt samningi sem lá fyrir í lokadrögum í árslok veitir ÞSSÍ allt að 3,5 milljónum Bandaríkjadala til verkefnisins en heildarkostnaður við það er áætlaður 8,1 milljón bandaríkjadala. Hlutur ÞSSÍ er því 43% af heildarkostnaði á móti UNICEF og tveimur öðrum þróunarsamvinnustofnunum, þeirri bresku (DfID) og sænsku (Sida).

Framkvæmd verkefnisins er undir stjórn UNICEF en hún er samhæfð áætlun mósambískra stjórnvalda og unnin með opinberum stofnunum í vatns-, salernis- og hreinlætismálum á öllum stjórnsýslustigum í landinu. Einkageirinn, félagasamtök og íbúar hafa einnig aðkomu að verkefninu. UNICEF sinnir eftirliti með einstökum verkþáttum og framkvæmd þeirra á meðan ÞSSÍ fylgist með að fjármunum sé rástafað í samræmi við áætlanir og sinnir reglubundnu eftirliti um framvindu.

Í október réði UNICEF sérfræðing í vatns- og salernismálum til starfa með aðsetur í Quilemane, höfuðborg Zambéziu fylkis. Sérfræðingurinn er með vinnuaðstöðu á Skipulags- og byggingar-sviði  fylkisins (DPOPH). Fyrsta verkefni sérfræðingsins er vinna við kortlagningu vatns – og salernismála í fylkinu í samstarfi við fylkis- og héraðsyfirvöld. Markmið kortlagningarinnar er að greina stöðu vatns- og salernismála þar og velja þau fimm héruð sem verkefnið mun ná til. Búið var að velja tvö héruð af þeim fimm, Gurué og Gile sem eru í norðausturhluta fylkisins. Þar er staðan í málaflokknum mjög slæm og voru þau því valin sem forgangshéruð.

Í nóvember fóru fulltrúar ÞSSÍ með UNICEF í fimm daga vettvangsferð til Zambéziu. Markmið ferðarinnar var m.a. að kynna ÞSSÍ fyrir samstarfsaðilum verkefnisins, þ.e. skipulags- og byggingarviði, heilbrigðisviði og menntasviði fylkisins. Ennfremur voru aðstæður skoðaðar í vatns- og salernismálum í skólum og þorpum á svæðinu. Með í ferðinni var kynningarstjóri ÞSSÍ sem safnaði upplýsingum og myndefni um verkefnið til að kynna á Íslandi. Byrjað var að kynna samstarfið á vefsíðu og í Heimsljósi, veftímariti ÞSSÍ í desember.

Önnur þróunarsamvinna: Regnhlífarsamtök óháðra útvarpstöðva (FORCOM)

Eitt af gildum íslenskrar þróunarsamvinnu er að standa vörð um lýðræði. Í Mósambík sem víðar gegna óháðar útvarpsstöðvar mikilvægu lýðræðishlutverki. Oft á tíðum eru þær umdeildar þegar þær ganga fram fyrir skjöldu í baráttumálum almennings og spyrja ráðamenn óþægilegra spurninga. Mörgum útvarpsstöðvum í Mósambík hefur verið lokað og starfsfólki jafnvel hótað, sérstaklega í aðdraganda kosninga. Regnhlífarsamtökin FORCOM hafa undir sínum verndavæng 45 útvarpsstöðvar víðs vegar í Mósambík og veita stöðvunum og starfsfólki þeirra m.a. lögfræðilegan stuðning.

Í júlí var bifreiðum ÞSSÍ í Mósambík fækkað um eina og ákveðið var að styðja FORCOM, með því að gefa samtökunum notaða bifreið og styðja við rekstur hennar í eitt ár. Fyrir stofnuninni vakir að styrkja sjálfstæða fjölmiðlun í gegnum samtök útvarpsstöðva sem ná út með upplýsingar og umræðu til fátækra í hinum dreifðu byggðum, og styrkja þannig hið borgaralega samfélag til að veita stjórnvöldum aðhald og standa vörð um lýðræði. Óháðar útvarpstöðvar undir FORCOM tóku virkan þátt í fréttaflutningi fyrir og eftir forseta- og þingkosningarnar í október. Var bifreiðin sem ÞSSÍ lagði samtökunum til send til Zambéziu fylkis þar sem ótti var að hvað mest pólitísk átök yrðu í aðdraganda og í kringum úrslit kosninganna.

Þverlæg málefni: Samþætting kynjasjónarmiða og umhverfismál

Í verkefnislýsingu Fiskimálaverkefnastoðarinnar er sérstakur liður sem snýr að þverlægum málefnum. Þar er þar áréttað að kynjasjónarmið skuli samþætt í stefnumótun, aðferðir og ákvarðanatöku við stjórnun fiskimálageirans. Gert er ráð fyrir námskeiðum um jafnréttismál, aukinni þátttöku kvenna í stjórnum og að reglubundið eftirlit með málefninu fari fram. Þá er gert ráð fyrir aukinni hlutdeild kvenna í smárekstri og þjálfun innan geirans. Í niðurskurði ársins 2014 var fjármagn til þessa málefnis skorið niður á þeim grundvelli að ráðuneytið og undirstofnanir þess vinni eftir stefnu um það auk þess sem stór verkefni á vegum IFAD og Alþjóðabankans vinni að því. Norska sendiráðið hyggst styðja sérstakt tilraunaverkefni fyrir utan verkefnastoðina um virðiskeðju í fiskeldi í gegnum norsku samtökin Norges Vel. Verður það verkefni með áherslu á konur í fiskeldi og framkvæmt í námunda og samstarfi við CEPAQ.

Verkefnastoðin gerir einnig ráð fyrir að umhverfismál séu samþætt í alla stefnu, áætlanir og framkvæmd í fiskimálageiranum. Athygli er sérstaklega beint að nýtingu náttúruauðlinda og vörnum gegn mengun jarðvegs í tengslum við framkvæmdir. Sérstakur gátlisti er notaður til að hafa eftirlit með umhverfisáhrifum aðgerða.

Áhersla er lögð á kynja- og umhverfissjónarmið í vatns- og salernisverkefninu. Um 70% íbúa í dreifbýli Zambéziu þurfa að ganga í meira en 500 metra eftir vatni. Vatnsburðurinn er almennt í höndum stúlkna og kvenna sem aftur tekur tíma þeirra frá öðrum verkefnum, þar á meðal tekjuöflun og námi. Ferð til og frá vatnsbóli getur auk þess verið áhættusöm og mörg dæmi eru um að ráðist sé á stúlkur og konur þegar þær eru að sækja vatn. Þá er skólum tryggt aðgengi að hreinu vatni og þeir verða með kyngreinda salernisaðstöðu sem oft skiptir stúlkur miklu máli. Hreint vatn og bætt salernisaðstaða er einnig mikilvægt umhverfismál og notast er við gátlista við mat á umhverfisáhrifum.