• Mannfjöldi17,4 milljónir
  • Sæti á lífskjaralista SÞ174
  • Framlag ÞSSÍ 2014578 milljónir
  • Flatarmál118.484 km2
  • HöfuðborgLilongwe
  • Lífslíkur55,3 ár
  • Hlutfall fátækra61,6%Hagvaxtarprósenta5,7%
Sjá lykiltölur

Malaví

Inngangur

Árið 2014 var kosningaár í Malaví. Kosið var til forseta, þings og sveitarstjórna á einu bretti. Setti þetta óneitanlega mikinn svip á árið og líklega gleymdust tímabundið mörg vandamál sem malavíska þjóðin stendur frammi fyrir. Hagvöxtur ársins þótti ásættanlegur, 5,7%, en margvíslegur mótvindur dró úr jákvæðum áhrifum hans. Fyrst ber að nefna háa verðbólgu sem hefur hrjáð Malaví frá 2012. Meðalverðbólga ársins var rétt innan við 24% sem olli fátæku fólki í landinu miklum vandræðum. 

Annað sem hefur haft mikil áhrif til hins verra er að samstarfsþjóðir Malava hættu beinum fjárlagastuðningi við ríkissjóð landsins seint á árinu 2013. Gerðist þetta í kjölfar fjármálahneykslis hjá ríkinu. Afleiðingar þessarar ákvörðunar samstarfsþjóðanna gerði að verkum að ríkið þurfti að draga gríðarlega úr útgjöldum, en engu að síður var ríkissjóður rekinn með miklum halla. Skuldir ríkisins uxu mikið, ekki síst vanskilaskuldir. Er álitið að vanskilaskuldir í lok árs nemi nær 8% af vergri landsframleiðslu eins árs, en reyndar er ekki víst að öll kurl séu komin til grafar í þeim efnum. Sem bláfátækt og mjög skuldsett land var Malaví veitt eftirgjöf skulda árið 2006. Því miður nálgast landið hratt að vera komið í svipaða skuldastöðu og þá var. 

Þessi slæma staða hefur komið harkalega niður á grunnþjónustu í landinu, t.d. mennta- og heilbrigðisþjónustu. Endar nást ekki saman í hinum daglega rekstri og skiljanlega sitja nýframkvæmdir og viðhald eigna á hakanum. Undir lok ársins virtist þó aðeins rofa til. Malavísk stjórnvöld voru þá á góðri leið með að uppfylla skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til hljóta stuðning á nýjan leik. Vitað er að ýmsar samstarfsþjóðir líta á samstarf við gjaldeyrissjóðinn sem grunnforsendu þess að hefja fjárlagastuðning á ný. Einnig virtist malavíski gjaldmiðillinn ná fótfestu undir lok ársins eftir nær stöðugt fall síðan 2012, en stöðugur gjaldmiðill er nauðsynlegur til að ná tökum á verðbólgu. 

Því gætti hóflegrar bjartsýni þegar árið 2015 gekk í garð.


Þróunarsamvinna ÞSSÍ

ÞSSÍ einbeitir starfi sínu að einu héraði í Malaví, Mangochi-héraði. Núverandi stuðningur, sem hófst í júlí 2012 og lýkur á miðju ári 2016, byggir undir grunnþjónustu í héraðinu með því að veita héraðsyfirvöldum stuðning á þremur sviðum, lýðheilsu, vatni og grunnmenntun. 

Árið 2014 var fyrsta heila árið sem unnið var á öllum þremur verkefnasviðunum með fullfrágengnum verkefnaskjölum og vöktunar- og eftirlitsáætlun. Í heildina er óhætt að fullyrða að vel hafi gengið, bæði að framkvæma þau verkefni sem skilgreind eru í verkefnaskjölunum, sem og að fylgjast með framgangi þeirra. 

Allar framkvæmdir og viðfangsefni sem eru skilgreind í verkefnaskjölunum, byggja á því sem kallað hefur verið „héraðsnálgun“, en hún felst í því að héraðsstjórnin í Mangochi bera ábyrgð á skipulagningu, útboðum og fjármálalegri umsýslu. Allt er byggt á malavískum lögum, reglugerð-um og verklagsreglum um opinber innkaup. Það er reynsla starfsfólks umdæmisskrifstofunnar, að þetta regluverk og fyrirkomulag virki vel, sé því fylgt á öllum stigum. 

Á miðju ári var gerð úttekt á árangri verkefnisins fyrri hluta verkefnatímabilsins og voru niðurstöður hennar mjög jákvæðar. Að sjálfsögðu var bent á ýmislegt sem betur má fara og var byrjað að taka á þeim ábendingum undir lok ársins.

Málaflokkar

Lýðheilsuverkefnið er sú af verkefnastoðunum þremur sem er mest að umfangi. Markmiðið með verkefninu, er að auka lífsgæði fólksins í héraðinu, með bættri heilbrigðisþjónustu. Sjónum er einkum beint að aðgerðum sem er ætlað að draga úr dauða við barnsburð og ungbarnadauða. Þetta er fyrst og fremst  gert með því að auka framboð og aðgang að þjónustu við barnshafandi konur og ungbarnaeftirlit.

Stærsta einstaka viðfangsefnið í tengslum við lýðheilsu, er bygging nýrrar fæðingardeildar í Mangochibæ. Skrifað var undir samninga við verktaka, að undangengnu útboði, í árslok 2013. Allmiklar tafir urðu í útboðsferlinu, þannig að verkið hófst síðar en til stóð. Nokkrar tafir hafa einnig orðið á framkvæmdatímanum. Í árslok 2014 voru byggingarframkvæmdir langt komnar og unnið að frágangi innanhúss. Jafnframt var undirbúningur alþjóðlegs útboðs vegna tækjakaupa langt kominn. Gert er ráð fyrir því að hægt verði að taka fæðingardeildina í notkun  á síðari hluta árs 2015.

Um leið og stóra fæðingardeildin í Mangochibæ var boðin út, var að auki boðin út bygging tveggja minni fæðingardeilda, á dreifbýlum svæðum. Hvor um sig er  tengd heilsugæslum sem ætlað er að þjóna nokkrum tugum þúsunda íbúa. Byggingarframkvæmdum var að mestu lokið um áramót. Þá var eftir ýmiss frágangur innanhúss, auk þess sem útboð vegna búnaðar fór fram um leið og búnaðarútboðið fyrir stóru fæðingardeildina í Mangochibæ.

Fyrir árslok var skrifað undir samninga vegna byggingar tveggja minni fæðingardeilda í dreifbýli sem ráðgert er að verði hægt að taka í notkun á árinu 2015. Útboði annarrar var flýtt til að tryggja að verkinu verði að fullu lokið fyrir lok verkefnatímans, auk þess sem hagkvæmt er að vinna fleiri en eitt verk af þessu tagi samhliða. Þetta eru síðustu fæðingardeildirnar sem ráðgert er að reisa í tengslum við þetta verkefni, sem lýkur um mitt ár 2016.

Í verkefninu er gert ráð fyrir því að vatnsveitu verði komið á fót við 13 heilsugæslustöðvar. Búið er að taka níu í gagnið. Á árinu var samið um átta borholur (sex nýjar og tvær endurnýjaðar), til viðbótar við þær fimm sem voru tilbúnar áður. Hins vegar tókst ekki að ljúka nema fjórum þeirra (2 nýjar og 2 endurnýjaðar), þar sem verktakinn sem hafði verið ráðinn til að bora nýju holurnar, náði ekki að ljúka verkinu fyrir upphaf regntímans. Holurnar fjórar sem út af standa, verða væntanlega boðnar út aftur árið 2015. Ennfremur er gert ráð fyrir því að 19 heilsugæslustöðvar verði tengdar rafmagni á verkefnistímanum, 12 með sólarorku, en sjö verði tengdar dreifikerfi rafveitu. Hvor leiðin er farin, markast af fjarlægð stöðvanna frá dreifikerfinu. Uppsetningu sólarrafstöðva er lokið við fjórar heilsugæslustöðvar og samningar hafa verið undirritaðir vegna sjö til viðbótar. Ennfremur hafa þrjár stöðvar verið tengdar dreifikerfinu og samningar hafa verið undirritaðir vegna þeirra fjögurra sem eftir eru.

Nokkrum fjármunum er varið til viðhaldsverkefna í heilsugæslustöðvum. Þannig hafa verið gerðar gagngerar endurbætur á fimm heilsugæslustöðvum til þessa.

Hluti af verkefninu gengur út að auka möguleika á að flytja sjúklinga nær sjúkrahúsum þegar þörf er á. Í því skyni hafa verið keyptir fimm sjúkrabílar, sem sumir eru staðsettir í dreifbýli. Síðasta bílinn átti ekki að kaupa fyrr en á síðari hluta árs 2015, en þeim kaupum var flýtt, m.a. vegna þess að talið var hagkvæmara að bjóða út tvo í einu.

Engin sjúkrabiðskýli, heilsuskýli eða starfsmannahús voru reist á árinu, þó svo upphaflegar áætlanir hafi gert ráð fyrir því að svo væri. Fyrir lok árs hafði þó farið fram útboð og samningar verið undirritaðir við verktaka vegna byggingar þriggja biðskýla, fjögurra heilsuskýla og sex starfsmannahúsa við heilbrigðisstofnanir. Að hluta til má skýra drátt þessara verkefna þannig að verið er að vega upp á móti því að öðrum var flýtt.

Eitt af því mikilvægasta í heilbrigðiskerfi á svæðum þar sem fátækt er mikil og vegalengdir eru miklar og erfitt er yfirferðar, eru svokallaðir heilbrigðisfulltrúar (Health Surveillance Assistants). Þeim er ætlað að halda utan um skráningu og upplýsingar um fæðingar, dauðsföll og almennt heilsufar á því svæði sem þeir hafa umsjón með. Þeir hafa fengið þjálfun í að bólusetja og veita fyrstu hjálp af ýmsu tagi. Í mörgum tilvikum geta þeir leyst úr vanda fólks, án þess að leita þurfi lengra. Þjálfun þessa starfsfólk og geta til að sinna starfinu er því gríðarlega mikilvæg. Þess vegna var snemma í verkefninu farið í að kaupa reiðhjól fyrir alla heilbrigðisfulltrúa í héraðinu, alls 550, auk hlífðarfata og fl. Keyptar voru staðlaðar skráningarbækur, til að halda utan um heilsufarsupplýsingar íbúanna. Þjálfun í notkun þeirra og úrvinnsla upplýsinga er lykilatriði, til að tryggja að heilbrigðisupplýsingar séu réttar og nákvæmar í héraðinu.

Á árinu 2014 fór fram þjálfun í skráningu og notkun þessara bóka. Nátengt er mikilvægi þess að þær upplýsingar sem heilbrigðisfulltrúarnir safna og halda utan um, komist til skila á heilbrigðisskrifstofu héraðsins. Því var keyptur fjarskiptabúnaður á árinu, að undangengnu útboði.

Menntaverkefnið er önnur af verkefnastoðunum. Það fór ekki af stað af fullum krafti fyrr en sumarið 2013, ári síðar en áformað var, þar eð formlegt verkefnisskjal var ekki tilbúið fyrr. Ýmsir verkþættir höfðu þó verið settir af stað. Verkefnið gengur í stórum dráttum út á að efla 12 af u.þ.b. 260 grunnskólum í héraðinu, með það fyrir augum að gera þá að fyrirmyndarskólum. Ákveðið var að styðja myndarlega við fáa skóla, frekar en að dreifa þeim takmörkuðu fjármunum sem eru til ráðstöfunar víða. Ennfremur var ákveðið, að þótt skólarnir fái allir sambærilegan stuðning, þá kæmi hann á mismunandi tíma á líftíma verkefnisins. Þannig yrðu skólastofur byggðar við helming skólanna á fyrrihluta verkefnistímans, en við hinn helminginn á síðari hlutanum. Fleiri verkefnisþáttum var skipt með sama hætti. Með þessu móti er ráðgert að reyna að leggja mat á það hvað skiptir mestu máli til bæta námsárangur og draga úr brottfalli. Til þess að fá enn frekari samanburð en einvörðungu innbyrðis innan verkefnisskólanna, voru valdir aðrir 12 skólar, sambærilegir að stærð og fjölda nemenda, sem viðmiðunarhópur.

Stuðningurinn sem verkefnisskólunum 12 er veittur, er af margvíslegu tagi. Í fyrsta lagi er um að ræða verulega viðbót við húsakost. Þannig er gert ráð fyrir að reistar séu 52 skólastofur, 36 kennarabústaðir, 48 útisalerni, kaupum á skólahúsgögnum, auk þess sem gerðar eru lagfæringar á eldra og oft úr sér gengnu húsnæði. Gert er ráð fyrir átaki í útvegun kennslubóka og stílabóka, þjálfun kennara, bæði þeirra sem starfa við skólana, auk þess sem verkefnið kostar nám 60 nýrra kennara á tímabilinu. Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir eflingu stjórnenda, stuðningi við mæðrahópa og stúlknahópa, stuðningi við nemendur með sérþarfir og fleira.

Byggingu skólastofa, sem eru langviðamestu framkvæmdirnar í menntaverkefninu, miðar vel áfram og eru raunar nokkuð á undan áætlun. Lokið er að fullu við 24 kennslustofur og vinna við 20 til viðbótar er komin vel áleiðis og á lokasstigum í sumum tilvikum. Við nokkra skóla var byggingu skólastofa flýtt frá því sem upphaflega var ráðgert, þannig að í heild er þessi verkþáttur á undan áætlun. Ekki er sömu sögu að segja um byggingu kennarabústaða. Alls eru 12 hús á ýmsum byggingarstigum, en engu þeirra er lokið. Vinna er ekki hafin við 24 hús. Bygging útisalerna er ekki hafin neins staðar. Þrátt fyrir þetta er ekki ástæða til að ætla annað en að byggingu kennarabústaða og útisalerna ljúki í tæka tíð, enda meðvituð ákvörðun fræðsluyfirvalda að flýta byggingu skólastofa lítillega, en seinka kennarabústöðum og útisalernum á móti. Gert er ráð fyrir því að þær framkvæmdir verði langt komnar í árslok 2015.

Þjálfun starfandi kennara í verkefnisskólunum virðist hafa gengið samkvæmt áætlun og kennararnir sjálfir, kennsluráðgjafar og stjórnendur á fræðsluskrifstofu eru þeirrar skoðunar að hún eigi eftir að skila miklu. Hluti af þeim hópi sem býðst kennaramenntun fyrir tilstilli verkefnisins hefur lokið námi. Samkvæmt samkomulagi ÞSSÍ, héraðsins og menntamálaráðuneytisins, áttu þeir að hefja störf í verkefnisskólunum að loknu námi. Þeir sem lokið hafa námi eru þó ekki enn komnir til starfa, þar sem ráðuneytið hefur ekki getað ábyrgst launagreiðslur til þeirra. Unnið er að úrlausn málsins.

Kennsluráðgjafarnir, sem hver um sig hefur á bilinu 17-18 skóla á sinni könnu, hafa einnig hlotið þjálfun hjá MIE (Malawi Intstitute of Education). Allir kennsluráðgjafar í héraðinu, 18 talsins, fengu þjálfun, óháð því hvort verkefnisskólarnir eru á þeirra svæði eða ekki. Þeir fjórir sem stýra svæðunum sem verkefnisskólarnir eru á, hafa fengið viðbótarstuðning. Þeim hefur verið séð fyrir tölvubúnaði og kennslu á hann, auk þess sem keypt voru mótorhjól til að auðvelda þeim að heimsækja þá skóla sem tilheyra því svæði sem þeir sjá um. Árangur af þessu er farinn að koma í ljós, í bættri skýrslugerð, áætlanagerð og stuðningi við skólastjórnendur.

Búið er að kaupa allmikið af húsgögnum í skólana 12, bæði fyrir nemendur og kennara. Enn er þó langt í land með að allir nemendur eigi þess kost að sitja við borð og ljóst að þetta verkefni mun ekki fullnægja þeirri þörf fyrir mitt ár 2016, enda ekki gert ráð fyrir því.

Á síðasta ári var hafist handa við að útbúa sérstaka aðstöðu fyrir nemendur með sérþarfir í einum skóla og starfsfólk þjálfað. Allstór hópur nemenda með skerta heyrt hefur fengið heyrnarmælingu og mat á því hvort heyrnartæki muni gagnast einstaklingum í þeim hópi. Unnið er að því að útvega þeim slík tæki.

Allstór hópur munaðarlausra barna nýtur stuðnings frá verkefninu, í formi skólagjalda og skólabúninga, auk þess skólayfirvöld og mæðrahópar í skólunum líta sérstaklega til með þessum hópi. Í öllum skólunum hafa nemendur fengið ormalyf, en ormasýkingar eru ekki óalgengar í Malaví, einkum í námunda við vötnin. Ormasýkingar draga mjög úr orku og námsgetu barna og ungmenna.

Til þess að leggja mat á framgang og árangur menntaverkefnisins, eru notaðar ýmsar aðferðir. Í verkefinu sjálfu er gert ráð fyrir því að reglulega séu stöðluð próf lögð fyrir nemendur í tveimur árgöngum, þeim fjórða og lokaárgangi, þ.e. áttunda bekk. Þetta er gert bæði í verkefnisskólunum og í samanburðarskólunum. Með því móti eiga að fást mikilvægar upplýsingar um þróun námsárangurs á tímabilinu innan verkefnisskólanna, en jafnframt samanburður við viðmiðunarhópinn. Með því að tengja þessar upplýsingar við aðrar upplýsingar, m.a. um framgang einstakra verkefna, er vonast til þess að hægt verði að leggja raunhæft mat á áhrif aðgerðanna.

Til viðbótar við samræmdu prófin, gerir ÞSSÍ árlega kannanir í öllum verkefnisskólunum og samanburðarskólunum, meðal stórra úrtaka nemenda og  foreldra, og allra kennara og stjórnenda. Þessar upplýsingar eru þegar farnar að sýna nokkur áhrif verkefnisins.

Einnig má geta að í samstarfi við Matvælaáætlun S.þ. (WFP) veitir ÞSSÍ stuðning við tilraunaverkefni með það markmið að þróa heimaræktaðar skólamáltíðir. Þessi aðferð hefur sýnt árangur í rómönsku Ameríku og er vonast til að sama gerist í Malaví. Verkefnið snýst um að kaupa hráefni af bændum í nágrenni við skólana og nýta það í fjölbreyttar og næringaríkar máltíðir fyrir skólabörn. Verkefnið styður þannig við bændur í nærumhverfinu. Í tengslum við máltíðirnar er börnunum kennd ýmis undirstöðuatriði góðrar næringar og eru dæmi um að sú kunnátta hafi skilað sér í hollari og næringaríkari máltíðum heima fyrir.

Vatnsveituverkefnið er þriðja verkefnisstoðin í samstarfi ÞSSÍ og Mangochihéraðs. Það felst í að bæta aðgengi að hreinu vatni í einu umdæmi (Chimwala) héraðsins, auk þess að bæta salernisaðstöðu á sama svæði. Gert er ráð fyrir því að boraðar verði 150 nýjar borholur, grafnir verði 100 yfirbyggðir brunnar og að 100 óvirkar borholur verði lagfærðar. Jafnframt gerir verkefnið ráð fyrir því að þær vatnsnefndir sem tengjast þessum 350 vatnsbólum hljóti þjálfun. Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir því að 80% heimila komi sér upp kömrum og aðstöðu til handþvotta. Í því sambandi er fylgt stefnu malavískra stjórnvalda, sem gerir ráð fyrir því að samfélög fái fræðslu um nauðsyn og gagn bætts hreinlætis, auk þess sem þeim sé kennt að útbúa kamra.

Alls var lokið við 38 nýjar borholur á árinu. Þar með eru 95 nýjar borholur tilbúnar það sem af er verkefninu. Í áætlunum ársins hafði verið gert ráð fyrir því að holurnar yrðu 45, en það náðist ekki áður en regntíminn hófst, einkum vegna þess að verktaki var ekki nægjanlega vel tækjum búinn.

Á árinu voru grafnir 25 handgerðir brunnar, jafn margir og fyrirhugað var. Þar með er heildarfjöldi þeirra orðinn 58. Mikill gangur var í endurbótum á eldri borholum. Áætlanir gerðu ráð fyrir að 30 holur yrðu endurnýjaðar, en reyndin varð 42. Þar með er búið að endurnýja 85 borholur af þeim 100 sem verkefnið gerir ráð fyrir.

Heildarfjöldi þeirra vatnsnefnda sem hafa verið stofnaðar og hafa hlotið þjálfun, er jafn þeim fjölda vatnsbóla sem eiga að vera tilbúin, þar sem þjálfun nefndanna er í raun undanfari framkvæmdanna. Þegar valið er í nefndirnar, er þess gætt að a.m.k. helmingur fulltrúanna sé konur.

Allmargir þorpshöfðingjar og annað lykilfólk í samfélögunum í Chimwala hafa fengið þjálfun í því hvernig tryggja skuli aukið hreinlæti og að fólk gangi ekki örna sinna á víðavangi. Um áramótin höfðu ekki nema 15 þorp hlotið formlega staðfestingu þess efnis að allir noti kamra (Open Defecation Free).

Eitt af lykilatriðum í vatnsverkefninu er að ÞSSÍ kostar laun 14 af 18 vatnseftirlitsmanna héraðsins. Það hefur gengið eftir og á án efa sinn þátt í því hve vel hefur gengið að fylgja meginþáttum verkefnisins eftir.

ÞSSÍ styður starf kanadíska útibús Verkfræðinga án landamæra, en þeir hafa til nokkurra ára veitt vatnsskrifstofunni í Mangochi faglegan stuðning af ýmsu tagi. Sá stuðningur er í formi sjálfboðaliða, með verkfræðigráðu tengdri vatnsmálum, sem hjálpar vatnsskrifstofunni við stefnumótun og útfærslu stefnumótunar. Þessi aðstoð skilar miklu, ekki síst í að byggja upp sjálfstraust starfsmanna héraðsins.

Þverlæg málefni

Í verkefninu í Mangochi er mikil vinna lögð í eftirfylgni og vöktun. Einn mikilvægasti þátturinn í því starfi er að spyrja notendurna sjálfa. Ef tekið er dæmi af vatnsverkefninu, þá hafa kerfisbundið verið lagðar spurningar fyrir notendur þeirra vatnsbóla sem lokið hefur verið við. Undir árslok 2014 hafði spurningalisti verið lagður fyrir um 900 einstaklinga, nær allt konur, enda vatnsöflun til heimilisnota næstum alfarið á hendi kvenna. Ein áhugaverðasta og jákvæðasta niðurstaðan í þessari athugun er sú, að með tilkomu nýs eða endurgerðs vatnsbóls hefur sá tími sem fer í að sækja vatn verið styttur verulega. Ekki er óvarlegt að ætla, miðað við svör notendanna, að það taki að jafnaði 30-60 mínútum skemmri tíma á dag að sækja vatn til heimilisnota en áður. Tímasparnaður af þessu tagi er mikilvægt innlegg í að auka lífsgæði kvenna. Það er ljóst að verkefnið færir þeim konum sem það nær til sparnað í tíma og líkamlegu erfiði sem svarar þó nokkrum klukkutímum á viku að jafnaði. Nota þær þennan tíma til að hvíla sig? Vinna þær meira á akrinum? Fá ungu stúlkurnar frekar tækifæri til að sækja skóla, þegar léttir á kröfum um vatnsburð? Þessar spurningar eru spennandi viðfangsefni, en kalla á frekari athuganir.