Of lítil til að breyta heiminum, en...

Of lítil til að breyta heiminum, en...

- eftir Engilbert Guðmundsson framkvæmdastjóra Þróunarsamvinnustofnunar Íslands

Íslensk aðstoð við fátækar þjóðir er of lítil ein og sér til að breyta heiminum. Það segir sig sjálft vegna smæðar okkar. En þegar við vöndum okkur vel og finnum okkur vettvang við hæfi getum við haft mikil og varanleg áhrif á nærsamfélag í fátækum löndum.

Á eyjum í Viktoríuvatni í Úganda sem kallast Kalangala býr mannfjöldi sem slagar upp í fjölda íbúa Reykjavíkur.  Íbúarnir lifa að mestu á fiskveiðum og búa dreift á mörgum eyjum. Þarna hefur Þróunarsamvinnustofnun Íslands starfað með héraðsyfirvöldum um árabil við að bæta afkomu fiskimanna og fjölskyldna þeirra og styrkja opinbera þjónustu. Það tekur langan tíma að sjá árangur af slíku starfi, en á undanförnum árum höfum við byrjað að sjá að aðstoðin er að skila góðum árangri.

Bætt löndunaraðstaða og hreinlætisaðstaða henni tengd hefur dregið úr brottfalli og skemmdum á afla, sem aftur hefur aukið tekjur fiskimanna af hverjum fiski sem dreginn er á land.  Og löndunarbryggjur með viktunaraðstöðu og opinberu eftirliti draga úr líkum á því að svindlað sé á fiskimönnunum með þyngd aflans. Svipaða sögu má segja frá löndunarstöðum við önnur stöðuvötn í Úganda þar sem Þróunarsamvinnustofnun hefur stutt við bætta löndunaraðstöðu og meðferð afla.

Á löndunarstöðum Kalangalaeyja höfum við einnig stutt við uppbyggingu á hreinlætisaðstöðu og öflun á hreinu vatni fyrir íbúana. Þetta hefur mælst afar vel fyrir og við sjáum að fiskimanna-fjölskyldur hafa tekið að flytja á þessa staði til að geta nýtt sér aðstöðuna. Fiskiþorp myndast, líkt og gerðist á Íslandi fyrir 100 árum og ýta undir framfarir.


Mestu breytingarnar hafa þó orðið í menntun barna. Í dreifðu eyjasamfélagi var erfitt að koma öllum börnum í skóla. Með stuðningi Þróunarsamvinnustofnunar gat héraðsstjórnin byggt nýja og betri skóla og komið upp heimavistum fyrir börn af smærri eyjunum. Til að bæta kennsluna var gripið til ýmissa ráða, þar á meðal voru kennarar þjálfaðir og byggð fyrir þá hús að búa í.  Áður en íslenski stuðningurinn hófst raðaðist Kalangala jafnan í hóp þeirra 10 héraða þar sam námsárangur var lakastur, í svona 110. sæti.  Nú, 10 árum seinna raðast héraðið í hóp 20 – 30 bestu héraðanna, af um 120, og það eru börnin á heimavistinni sem sýna mestu framfarirnar.

Með auknu verðmæti afla, þéttbýlismyndun og betri menntun heimafólks er þannig lagður grunnur að framförum og, ef vel tekst til um framhaldið, varanlegum umbreytingum á samfélaginu.

Þróunarsamvinnustofnun getur vitnað í fleiri slík dæmi um árangur þegar við lítum til baka til ársins 2014, þótt framfarirnar tilheyri sjaldnast einu tilteknu ári.  Við höfum átt þátt í að hefja uppbyggingu á fiskeldi í Mósambík, bæta menntun og heilbrigðisþjónustu í milljón manna héraði í Malaví, leita að jarðhita til virkjunar og sitthvað fleira. Þegar litið er til daglegrar starfsemi var 2014 um flest gott og árangursríkt ár hjá Þróunarsamvinnustofnun.

Óháðar úttektir sem gerðar voru á verkefnum sem lokið hafði verið gáfu einnig til kynna að íslensku þróunarsamvinnufé hefði verið vel varið. Þannig staðfesti lokaúttekt á vatns- og hreinlætisverkefni í Malaví mikinn ávinning í lífsskilyrðum og heilsu þeirra sem þess nutu. Heildarúttekt á samvinnu Íslands og Namibíu í fiskimálum staðfesti einnig að þar hefði náðst góður og varanlegur árangur sem miklu skipti fyrir framfarir í Namibíu.

Mikil vinna var lögð í að undirbúa verkefni og samstarf næstu ára. Veigamestur var þar undirbúningur fyrir samstarf við nýtt hérað í Úganda, Buikwe, með áherslu á afkomu fjölskyldna sem lifa af fiskveiðum og grunnþjónustu í menntun og hreinu vatni í fiskimannabyggðum.  Samkomulag um þá samvinnu var undirritað milli Þróunarsamvinnustofnunar og stjórnvalda í Úganda. Þá var einnig gengið frá samstarfssamningi milli Þróunarsamvinnustofnunar og Unicef í Mósambík um sameiginlega fjármögnun á vatns-, salernis- og hreinlætisverkefni í einu fátækasta fylki landsins.

Stofnunin lagði áherslu á samstarf við aðrar stofnanir og félagasamtök á mörgum sviðum. Sameiginlegt kynningarverkefni um þróunarsamvinnu með íslenskum félagasamtökum um unglingsstúlkur í þróunarríkjum þótti takast afar vel.  Hið sama má segja um jarðhitaráðstefnu í samstarfi Afríkusambandsins og Þróunarsamvinnustofnunar, en hana sóttu fulltrúar landa og stofnana.

Árið var hinsvegar markað af óvissu um framtíð stofnunarinnar. Þrátt fyrir margvíslegar mjög jákvæðar umsagnir um starf stofnunarinnar,  góðan árangur af verkefnum, framfarir sem orðið hafa í verklagi og vinnubrögðum Þróunarsamvinnustofnunar og öflugt kynningarstarf á þróunarsamvinnu var um mitt ár ákveðið að leggja fram frumvarp um breytingar á lögum um þróunarsamvinnu, þar sem sú breyting var veigamest að Þróunarsamvinnustofnun skyldi lögð niður og öll framkvæmd þróunarsamvinnu flutt inn í utanríkisráðuneytið. Stofnunin hefur ítrekað lýst andstöðu við þessa nálgun og lagt til málanna að flutningur verkefna frá ráðuneyti til stofnunar sé skilvirkari leið til árangurs. Frumvarpið er til meðferðar á Alþingi þegar þessi orð eru rituð og óvíst hvenær og hvernig afgreiðslu þess lýkur. Þrátt fyrir óvissu um starfsumhverfi hafa starfsmenn stofnunarinnar unnið af krafti og með hag fátækra í samstarfslöndum okkar að leiðarljósi. Fyrir það ber að þakka.  Óvissan heldur áfram á árinu 2015 sem mögulega verður síðasta starfsár stofnunarinnar, en hún tók til starfa 1981.

Það hafði einnig áhrif á starf stofnunarinnar að vonir um auknar fjárveitingar til þróunarsamvinnu, samkvæmt þróunarsamvinnuáætlun sem samþykkt var 2013, urðu ekki að veruleika, heldur voru framlögin skorin töluvert niður. Enn skal á það bent hve Ísland er mikill eftirbátur þeirra þjóða sem við helst berum okkur saman við. Við náum því ekki einu sinni að vera hálfdrættingar á við Norðurlandaþjóðirnar, Breta eða Íra, svo ekki sé minnst á smáþjóðina Lúxemborg, sem leggur nær fimm sinnum hærra hlutfall af þjóðartekjum sínum til aðstoðar fátækum þjóðum. Enginn neitar því að ríkisstjórn og Alþingi er vandi á höndum að láta enda ná saman í ríkisfjármálum, því næg eru verkefnin. En hér skal þó látin uppi sú von að nógu margir telji að samúð og stuðningur við okkar „minnstu bræður“ skuli ekki skilyrt við að eiga fallegt, blátt íslenskt vegabréf.Formáli