Aðalskrifstofa

Yfirlit frá aðalskrifstofu

Á árinu 2014 urðu ákveðin vatnaskil fyrir ÞSSÍ þegar utanríkisráðherra tilkynnti á haustdögum að hann hyggist leggja stofnunina niður og færa starfsemi hennar undir utanríkisráðuneytið. Þessi ákvörðun ráðherra kom í kjölfar skýrslu Þóris Guðmundssonar, sviðsstjóra Rauða krossins, um þróunarsamvinnu „Þróunarsamvinna Íslands: Skipulag, skilvirkni og árangur”, en skýrsluna vann Þórir að beiðni utanríkisráðherra.

Eðli málsins samkvæmt hafa þessar fyrirhuguðu breytingar litað starfsemi ÞSSÍ á árinu en án þess þó að slakað hafi verið á gæðakröfum sem gerðar eru til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu. 

Tvíhliða samstarfslönd ÞSSÍ eru enn þrjú talsins, Malaví, Mósambík og Úganda og unnið er samkvæmt samstarfsáætlunum sem til eru og gildandi verkefnaskjölum í hverju landi. Jafnframt er áfram unnið í svæðasamstarfi við nokkur ríki í austanverðri Afríku á sviði jarðhita.

Heildarútgjöld

Heildarútgjöld ÞSSÍ námu 1,594,6 milljónum króna árið 2014 en voru 1,840,7 milljónir króna árið á undan sem er 13% lækkun milli ára. Ef miðað er við Bandaríkjadali, þann gjaldmiðil sem ÞSSÍ notar í starfi sínu í samstarfslöndum, er lækkunin aðeins minni eða 11% vegna gegnisþróunar krónunnar gagnvart Bandaríkjadal. Nánari er gerð grein fyrir skiptingu útgjalda árið 2014 í sérstöku fjármálayfirliti.

Starfsmannamál

Á aðalskrifsofu störfuðu 9 manns í árslok en sú breyting varð að Þórdís Sigurðardóttir, skrifstofustjóri til margra ára, hélt til Mósambík og tók við sem umdæmisstjóri þar um mitt ár. Starf skrifstofustjóra fluttist yfir á fjármálastjóra sem gegnir báðum hlutverkum. Þá lét Margrét Einarsdóttir sviðsstjóri af starfi sökum aldurs eftir 16 ára farsælt starf hjá stofnuninni.

Starfsmenn voru í árslok 40 og fækkaði um 3 stöðugildi frá árinu á undan, meirihlutinn eða 25, staðarráðnir í samstarfslöndum stofnunarinnar. Af heildinni voru 22 konur eða 55% starfsmanna og 18 karlar eða 45%. Útsendir starfsmenn stofnunarinnar voru 6 talsins og þrír starfsnemar voru ráðnir til starfa um fjögurra mánaða skeið í Mósambík, Malaví og Úganda.

Stefna og verklag

Áfram var unnið við mótun stefnu og verklags á árinu 2014. Mikilvægustu kaflar gæðahandbókar stofnunarinnar voru gefnir út og staðfestir. Þeir kaflar fjalla um undirbúning, framkvæmd, eftirlit og verklok þróunarverkefna með viðeigandi sniðmátum. Jafnframt var staðfest verklag við gerð samstarfsáætlana og hina ýmsu samninga í þróunarsamvinnu.

Verkefnaundirbúningur

Svið verkefnaundirbúnings leiðir þátt aðalskrifstofu við undirbúning þróunarverkefna- og verkefnastoða og á að tryggja að undirbúningsferlið og afurðir þess séu í samræmi við kröfur stofnunarinnar. Gæðahandbók ÞSSÍ var formlega tekin í notkun á árinu 2014 með útgáfu verklagsreglna og leiðbeininga auk ýmissa stoðskjala.

Verkefni eru undirbúin í samstarfi við stjórnvöld og aðra aðila í samstarfslöndunum á grundvelli viðkomandi samstarfsáætlunar og samkvæmt forskrift  gæðahandbókarinnar.

Stærsta einstaka viðfangsefnið á árinu var aðstoð og eftirfylgni með undirbúningi héraðsþróunar-verkefnis í Úganda. Buikwe hérað hafði orðið fyrir valinu sem nýr samstarfsaðili og eftir ýmsar greiningar og forkannanir náðust samningar um að einbeita sér að tveimur tugum fiskiþorpa með áherslu á heilbrigðis-/vatns-, fiski-, og menntamál. Ennfremur var ákveðið að setja vatnsmálin í forgang.

Sviðsstjóri verkefnaundirbúnings var um tíma í Úganda til aðstoðar umdæmisskrifstofu við undirbúning verkefnisins.

Í Mósambík var ákveðið að stofna til samstarfs við Unicef á sviði vatns-, salernis- og heilbrigðismála í Sambesíu fylki og var verkefnaskjal tilbúið til undirritunar lok ársins.

Á haustmánuðum 2014 hófst vinna við nýja þróunarsamvinnuáætlun.

Sviðsstjóri undirbúnings sat fund alþjóðlegs samráðsvettvangs á sviði þróunarmála (byggðaþróun og landbúnaðarmál) í desember um konur og fæðuöryggi .

Svið eftirfylgni og árangursmats


Kjarnastarfsemi sviðsins felst í umsjón úttekta með óháðum ráðgjöfum, móta stefnu og innra verklag um málefnið og taka þátt í alþjóðlegu samstarfi á þessum vettvangi.  

Ábyrgð sviðsins felst í sjálfstæðum úttektum á verkefnum ÞSSí, að setja stofnunni verklagsreglur sem varða vöktun og árangursmat og framfylgja þeim í samráði við umdæmisstjóra og verkefnastjóra svæðasamstarfs. Þetta felur í sér að við undirbúning verkefna er sérstaklega gert ráð fyrir vöktun og árangusmati þegar þeim er fylgt úr hlaði og upplýsingum safnað reglubundið á framkvæmdatíma. Umdæmisstjórar og verkefnastjórar bera ábyrgð á framvinduskýrslum til sviðsstjóra á aðalskrifstofu sem tryggir upplýsingagjöf gagnvart stýrihópi um þróunarsamvinnu hjá utanríkisráðuneytinu með reglubundnum formlegum skýrslum. Óháðar árangursúttektir eru fyrirfram ákveðnar þegar verkefni hefjast og oft miðaðar við miðjan framkvæmdastíma og síðan þegar verklok hafa verið staðfest.

Sjálfstæðar úttektir

ÞSSÍ fylgir gæðakröfum Þróunarsamvinnunefndar OECD, DAC. Úttektir fylgja fyrirmynd DAC og ráðgjöfum er gert að uppfylla skilyrði sem þar koma fram. Sjálfstæðar ytri úttektir á verkefnum eru boðnar út til að fá óháð mat á árangri þróunarsamvinnuverkefna með reglubundnum og formlegum hætti. Hlutverk slíkra úttekta er að tryggja að dregnir séu lærdómar af verkefnum og stefnumörkun ÞSSÍ og stjórnavalda taki mið af hlutlægum upplýsingum. Skýrslur um úttektir þjóna því markvissum tilgangi til að upplýsa um gang þróunarsamvinnu til ráðuneytis, Alþingis og undirnefnda, fjölmiðla, félagasamtaka og almennings. Þær eru birtar á heimasíðu ÞSSÍ.

Nýlegar úttektir

Á árinu 2014 voru gefnar út þrjár úttektarskýrslur og tvær í viðbót undirbúnar  auk innri rýni á valið verkefni ÞSSÍ og eru gögn aðgengilega á vef ÞSSÍ þar sem úttektir eru birtar eftir því sem þeim lýkur.

Birtar skýrslur 2014:

Malawi: Mangochi Basic Services Programme 2012-2016, Mid-Term Evaluation, September 2014

Malawi: WATSAN Project Nankumba - Final Evaluation Report, Jan 2014

Namibía: Final Impact Evaluation of ICEIDA interventions in the fisheries sector in Namibia 1990-2010 : Final Evaluation Report, May 30, 2014 

Kynningarmál

Í kynningarmálum var líkt og undanfarin ár lögð megináhersla á útgáfu Heimsljóss, vikulegs veftímarits um þróunarmál.  Blaðið er upplýsingaveita um alþjóðlega þróunarsamvinnu í heiminum og birtir fréttir, myndbönd og greinar af bæði innlendum og erlendum vettvangi. Í lok árs höfðu komið út rúmlega 250 tölublöð af veftímaritinu sem hefur komið reglubundið út frá árinu 2008. Valdar greinar eru birtar á vefsvæði Eyjunnar en viðtakendur eru um 1500, þriðjungur gegnum Facebook. Frétta- og fræðslumyndböndum fjölgaði einnig á árinu með nýjum kvikmyndabrotum frá Mósambík, Úganda og Kenía, en þau er öll að finna á heimasíðu ÞSSÍ í flokknum ÞSSÍ/Sjónvarp.

Á haustdögum var í fjórða sinn efnt til kynningarátaks í samstarfi við frjáls félagasamtök í alþjóðastarfi undir kjörorðinu: Þróunarsamvinna ber ávöxt. Að þessu sinni var sjónum beint að stöðu unglingsstúlkna í heiminum, ekki síst í þróunarríkjunum, en yfirskrift átaksins var: Sterkar stelpur  - sterk samfélög. Átakið vakti mikla athygli og fékk talsverða umfjöllun í fjölmiðlum. Af einstaka atburðum má nefna að  Silfurberg Hörpu fylltist af ungu fólki á málþingi með erindum, frásögnum og fræðslumyndum; ungar hljómsveitir með stelpur í forgrunni voru með vel heppnaða tónleika í Iðnó; íslenskri útgáfu af stelpuyfirlýsingunni var dreift í skóla og íslenskar tónlistarkonur túlkuðu yfirlýsinguna í kvikmynd; þá unnu þrjár fimmtán ára stelpur myndbandakeppni í tengslum við átakið.

Þróunarsamvinnustofnun stóð ásamt embætti Landlæknis  og samtökunum Afríka 20:20 fyrir komu Hans Rosling til landsins en þessi heimskunni og eftirsótti fyrirlesari og fræðimaður var með erindi í Hörpu um miðjan september. Fullt var út úr dyrum á fyrirlestrinum sem bar yfirskrifina „Fact-based World View“ og fjallaði að miklu leyti um ranghugmyndir Vesturlandabúa um þróun heimsins. Þróunarsamvinnustofnun lét taka fyrirlesturinn upp og birti á YouTube og á heimasíðu sinni.


Aðalskrifstofa